16:44
{mosimage}
(Benedikt Guðmundsson)
Íslandsmeistarar KR urðu síðast bikarmeistarar árið 1991 þegar liðið lagði Keflavík að velli í úrslitaleik bikarkeppninnar 94-81. Síðan þá hefur hvorki gengið né rekið í bikarnum hjá Vesturbæjarveldinu en nú er Benedikt Guðmundsson kominn við stjórnartaumana í DHL-Höllinni og í fyrra dró hann í land Íslandsmeistaratitilinn en er hann fær um að draga bikarinn að landi þetta árið? KR dróst gegn Njarðvíkingum í 8 liða úrslitum Lýsingarbikarsins en rimmur þessara liða eru jafnan mikið augnayndi og skemmst þess að minnast þegar liðin börðust um Íslandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð.
,,Við þekkjum það að spila í Njarðvík og leikir liðanna síðustu 7-8 ár hafa verið hörkuleikir. Við höfðum betur gegn þeim í fyrra í Íslandsmótinu og ætlum sjálfsögðu að hafa betur gegn þeim í bikarnum núna,” sagði Benedikt í samtali við Karfan.is
KR hefur unnið flesta bikartitla allra liða á landinu eða níu talsins. Síðasti bikartitill karlaliðsins kom þó árið 1991 eftir sigur gegn Keflavík svo menn eru orðnir langeygir eftir bikarnum í Vesturbænum. ,,Þú getur verið bæði heppinn og óheppinn í bikarnum en þú þarft alltaf að klára þitt verkefni og leikur KR og Njarðvíkur í 8 liða úrslitunum verður svakalegur leikur þar sem bæði lið ætla sér bikarinn í vetur og það lið sem langar meira í hann og kemur betur stemmt til leiks mun hafa ákveðið forskot.”
Síðustu misseri hafa áhorfendur ekki látið sig vanta á rimmur þessara liða og jafnan stemmning á pöllunum þegar Miðjan, stuðningsmannasveit KR, hefur upp raust sína. ,,Það er orðin ákveðin stemmning í kringum þessa leiki og ég er strax farinn að hlakka til. Bæði lið vilja spila hraðan og skemmtilegan bolta og þeim hefur báðum tekist það misjafnlega í vetur. Við vorum þunglamalegir framan af en höfum verið að létta á þessu hjá okkur. Ég tel að leikurinn í Njarðvík verði ekkert síðri skemmtun en leikur okkar gegn Grindavík í 16 liða úrslitunum,” sagði Benedikt við Karfan.is eftir bikardráttinn í gær.