Basile með 30 stig í Grindavíkursigri í Gryfjunni

Dedrick Basile lék eins og sá er valdið hefur á gamla heimavelli sínum í Njarðvík þegar hann og Grindvíkingar höfðu góðan sigur gegn heimamönnum. Lokatölur 87-95 þar sem Basile var með 30 stig, Kane 24 en Carlos 26 í liði heimamanna og honum næstur Chaz með 21 stig.

Eins og við var að búast hófust stimpingarnar strax á fyrstu sekúndum leiksins. Það var Jokic sem kom líflegur af Grindavíkur-bekknum með 6 stig í fyrsta leikhluta og gestirnir leiddu 17-20 eftir 10 mínútur.

Carlos Mateo fann sig vel í Njarðvíkurliðinu með 17 stig í hálfleik en Kane og Basile sáu að mestu um skorið fyrir gestina. Áfram hart barist og Arnór hinn ungi Helgason lét stemmninguna kannski fara full langt með sig og var fljótur að ná sér í þrjár villur. Njarðvík leiddi 43-41 í hálfleik en athygli vakti að Ólafur Ólafsson var ekki kominn á blað eftir fyrri hálfleik, aðeins tveir þristar sem hann skaut allan fyrri hálfleikinn og hvorugur vildi niður.

Líðan þrista:

Þristunum var ekki beint að rigna þó það væri þokkalega skorað. Njarðvík 3-12 og Grindavík 3-18. Kannski voru menn einfaldlega of pústaðir efitr sniðglímurnar í fyrri til að negla þessu niður?

Grindvíkingar voru talsvert sprækari í þriðja, settu 30 stig á Njarðvíkurvörnina þar sem Basile og Kane héldu áfram að valda Njarðvíkurvörninni vandræðum. Ólafur Ólafsson komst lokst á blað eftir tæplega 25 mínútna leik og gerði þá 5 stig í röð. Hann fékk sína fjórðu villu undir lok leikhlutans og Carlos minnkaði muninn í 61-71 fyrir Njarðvík með villu og körfu undir lok leikhlutans. Áfram svona nett við suðumark og pústrar víða um völl.

Basile fór langt með að gera út um leikinn snemma í fjórða leikhluta þegar hann kom Grindavík í 64-81 með þrist. Njarðvíkingar voru þó ekki alveg af baki dottnir, minnkuðu muninn í 87-89 af miklu harðfylgi en lengra komust þeir ekki. Njarðvíkingar hefðu getað jafnað en gegnumbrot hjá Chaz vildi ekki niður og Grindavík sleit sig frá að nýju l87-95.

Það gekk mikið á í kvöld, nokkrum sinnum hefði getað soðið upp úr en það slapp til. Harður leikur eins og jafnan gerist í þessum Suðurnesjarimmum en Grindavík búið að finna sinn annan sigur í deildinni á meðan Njarðvíkingar hafa tapað tveimur leikjum í röð.

Gangur leiksins

2-8, 12-13, 17-20

21-26, 29-32, 43-41

47-47, 53-56, 61-71

64-78, 69-87, 87-95

Tölfræði leiks

Myndasafn (Ingibergur Þór)