spot_img
HomeFréttirBaráttuglaðir Grindvíkingar unnu verðskuldað í Njarðvík

Baráttuglaðir Grindvíkingar unnu verðskuldað í Njarðvík

Suðurnesjalagur Njarðvíkur og Grindavíkur varð að sniðglímu á lofti í kvöld, naglbítur sem lauk með 80-85 sigri Grindvíkinga. Mönnum hent út úr húsi, T-villur, U-villur og einhver hundur í mönnum.

Gestirnir leiddu allan tímann, þegar heimamenn í Njarðvík jöfnuðu og komust yfir héldu flestir að þeir myndu sigla fram úr en Grindvíkingar létu ekki skáka sér svo auðveldlega og unnu verðskuldaðan sigur. Maður leiksins var enginn annar en hinn 19 ára gamli Bragi Guðmundsson sem steig myndarlega upp í Grindavíkurliðinu í kvöld með 19 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Hjá Njarðvík var Dedrick Basile stigahæstur með 15 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar. 

Logi Gunnarsson var í borgaralegum klæðum í kvöld en Haukur Helgi Pálsson var mættur aftur í gallann. Hann stoppaði stutt við í fyrri hálfleik og lenti í hnjaski og fór af velli eftir rétt rúmlega fjögurra mínútna leik. Grindvíkingar að sama skapi búnir að missa Jón Axel Guðmundsson út í atvinnumennsku og látið Evangelos Tzolos fara frá félaginu svo það er ljóst að landsleikjaglugginn mun hafa í för með sér miklar breytingar í gömlu Röstinni, þó ekki það miklar að panellinn verði fjarlægður af endaveggjum nýja hússins. 

Sjómannasunnudagurinn var sterkur í Grindavík í kvöld, gestirnir vildu reipitog og koddaslag en heimamenn urðu litlir í sér við þessi fangbrögð. Grindavík leiddi 12-24 eftir fyrsta leikhluta og ef Oddur Kristjánsson hefði ekki verið með rænu þá hefðu Njarðvíkingar líklega verið stigalausir í fyrsta leikhluta. 

Bragi Guðmundsson setti svip sinn á leikinn í kvöld, spilaði stíft á báðum endum vallarins eins og hann væri einhver „Gummi Braga.“ Bragi klukkaði tvo þrista í röð og kom Grindvíkingum í 23-37 og Njarðvíkingar að sama skapi litlausir í flestum sínum aðgerðum. 

Staðan reyndist 40-47 í hálfleik fyrir Grindavík og í hinni margrómuðu blaðamannastúku Njarðvíkinga féllu þessi orð í hálfleik hjá blaðamannI Vísís: „Ég er skotinn í honum,“ og átti sá áægti blaðamaður þá við Braga Guðmundsson. Við biðjum því lesendur Karfan.is um að fylgjast sérstaklega með umfjöllun Vísis um Braga Guðmundsson á næstu misserum því þeir á fjölmiðlasamsteypunni stóru eru svo sannarlega hrifnir eftir kvöldið (broskall).

Hvað komu Njarðvíkingar með að borðinu í síðari hálfleik? Vissulega betri leik á báðum endum vallarins en það var samt komið blóð í vatnið og Grindavík var hákarlinn, þeir brotnuðu ekki þó Njarðvík kæmist yfir. Grindavík bauð upp á leik þar sem Ólafur Ólafsson er með 9 stolna bolta. Undirritaður man ekki hvenær það gerðist síðast að Ólafur Ólafsson setti deildarmet á einhverjum tímapunkti í stolnum boltum (já, þetta er deildarmet á tímabilinu, áður en þú ferð á KKÍ.is að tékka þá er ég búinn að því, enginn hefur í vetur stolið fleiri boltum en Óli svo sparðu þér vafrið vinur.) 

Eftir uppúrsuðu sem lauk með hlaðborði af T-villum og U-villum var Skordilis hent út úr húsi í liði Grindvíkinga. Mannlýsingar Íslendingasagna blikna í samanburði afgreiðslu Davíðs Tómasar dómara á málinu sem þótti með eindæmum skeleggur og sanngjarn í túlkun sinni á villimanslegri framkomu manna sem áttu hlut að máli. Gekk Davíð svo langt að fá þjálfara beggja liða til að kinka kolli við niðurstöðunni. 

Í fjórða virtist horfa til betri vegar hjá Njarðvíkingum, Basile kom Njarðvík í 70-68 með þrist en allt kom fyrir ekki. Grindvíkingar létu það ekki hreyfa neitt við sér og kláruðu spennandi leik 80-85. Risastór sigur hjá Grindvíkingum sem hafa nú 6 stig í 4. sæti deildarinnar eins og Njarðvík sem eru í 5. sæti. 

Tölfræði leiks

Athugasemdir

Í tvígang komst Ólafur Ólafsson á það sem Gaupi kallar „einn á auðan sjó.“ Í hvorugt skipti tróð hann. Götuboltahreyfingin mótmælir þessum sniðskotum og áhorfendur eru beðnir velvirðingar en Ólafur virðist samt vera að breyta sínum leik, sniðskot fremur en troð og fleiri stolnir boltar. Athyglisverð þróun hjá reyndum kappa og alls ekkert svo slæmt enda gefur sniðskot jafn mörg stig og troðsla.

Fréttir
- Auglýsing -