Bandaríkin eru heimsmeistari í körfuknattleik 2010 eftir þægilegan sigur á Tyrkjum í úrslitaviðureign liðanna sem fram fór í Istanbul í Tyrklandi. Með sigrinum eru Bandaríkin eina þjóðin í heiminum sem fjórum sinnum hefur orðið heimsmeistari. Tvö lönd sem deildu metinu með Bandaríkjunum, þrír titlar, eru ekki lengur við lýði en það eru Júgóslavía og Sovíetríkin. Þetta var í fyrsta sinn sem Bandaríkin urðu heimsmeistari síðan árið 1994.
Lokatölur leiksins voru 64-81 Bandaríkjunum í vil og reyndist Benedikt Guðmundsson nokkuð nærri spá sinni en hann kastaði því fram að Bandaríkin myndu vinna með 13 stiga mun, hann reyndist vera 17 stig.
Sem fyrr var Kevin Durant í stuði en kappinn setti niður 28 stig fyrir Bandaríkjamenn og var valinn besti leikmaður mótsins og í fimm manna liðið. Hedo Turkoglu var stigahæstur í liði Tyrkja með 16 stig.
Litháar voru að vinna sín þriðju bronsverðlaun í sögunni en Tyrkir voru að vinna sín fyrstu verðlaun í sögunn á Heimsmeistaramóti en fyrir þetta mót var 6. sæti þeirra besti árangur á HM.
Með sigrinum í kvöld urðu Bandaríkin fyrsta liðið til þess að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum í London árið 2012.
Fimm manna úrvalslið mótsins:
Hedo Turkouglo, Tyrkland
Kevin Durant, Bandaríkin
Linas Kleiza, Litháen
Luis Scola, Argentína
Milos Tedosic, Serbía
Besti leikmaður mótsins:
Kevin Durant, Bandaríkin
Ljósmynd/ www.fiba.com – Kátir Bandaríkjamenn í Tyrklandi eftir öruggan sigur á heimamönnum.