Svendborg Rabbits unnu í gærkvöldi öflugan útisigur á Bakken Bears í dönsku úrvalsdeildinni. Lokatölur 98-102 eftir framlengda spennuviðureign. Þetta var í fyrsta sinn á öllum þessum tíma sem Axel Kárason hefur varið í Danmörku þar sem hann er í sigurliði gegn dönsku risunum í Bakken Bears. Staðan er: Axel 1-16 Bakken.
„Já þetta var sá fyrsti hjá mér,“ sagði Axel í samtali við Karfan.is í dag. Axel tókst ekki að skora á þeim tæpu 19 mínútum sem hann lék í leiknum en hann tók 2 fráköst og gaf 1 stoðsendingu. Stigahæstur hjá Svendborg var Brandon Rozzell með 37 stig og þar af 6/11 í þristum.
„Gott að fá smá stemmningu fyrir næsta leik sem eru undanúrslit í bikarkeppninni gegn Horsens í Kaninhulen,“ sagði Axel en Horsens eru 12-0 í deildinni, eina taplausa liðið í Danmörku á meðan Svendborg situr í 4. sæti með sex sigra og sex tapleiki.
„Þetta er töluvert annað en ég á að venjast hérna í Danmörku, þ.e.a.s. að vera svona ofarlega í töflunni,“ sagði Axel sem hefur síðustu ár verið við botn deildarinnar með Værlöse en félagið leikur ekki í dönsku úrvalsdeildinni þetta tímabilið.
Axel segir álagið hafa aukist nokkuð, ekki bara það að vera í toppliði í Danmörku heldur ferðast hann mikið þetta tímabilið vegna náms. „Ég þarf að sækja skólann nokkuð langt en ég lifi það af eins og allt annað hingað til,“ sagði Skagfirðingurinn brattur en hann fer um 4-5 sinnum í viku til Kaupmannahafnar en staðkunnugir þekkja að það er þónokkur spölur á milli Svendborgar og Kaupmannahafnar, um tveir og hálfur tími hvora leið. „Þetta er svolítið strembið á köflum en ætti að vera búið rétt áður en deildarkeppninni lýkur,“ sagði Axel sem stundar nám við dýralækningar í Danmörku.
Þegar við ræddum við Axel var hann ekki par hrifinn af lestarstjóranum sem sat við stjórnvölin þessa lestarfarðina, hafði sá atvinnumaður tekið rangt spor á leiðinni frá Kaupmannahöfn til Svendborgar og snúa þurfti lestinni við til að skipta um spor. Ævintýri sem við á Íslandi kynnumst kannski í framtíðinni ef menn koma sér saman um lestarsamgöngur hérlendis.
Arnar Guðjónsson þjálfari liðsins var vafalítið að vinna einn af sínum stærstu sigrum í Danmörku með því að leggja Bakken í gær en Arnar tók við skipstjórastólnum af Craig Pedersen. Undir stjórn Arnars eru Svendborg 2-3 en þessi öflugi útisigur í gær var annar sigur „Kanínanna“ undir stjórn Arnars í deildinni.