Breiðablik lagði KR í Domino´s deild kvenna í gærkvöldi og þar með var 16 leikja eyðimerkurganga nýliðanna á enda og fjórða stigið komið í hús. Nýtt líf færist vísast yfir Kópavoginn því nú er baráttan um að halda sér í deildinni orðið enn þéttari þar sem aðeins munar tveimur stigum á Blikum á botninum og KR í 7. sæti deildarinnar. Lokatölur í Smáranum í gær voru 70-61 Breiðablik í vil.
„Þetta var mikill léttir en um leið komið svolítið blóðbragð í okkur. Þeir eru jafnir alltaf þessir KR leikir og í þetta sinn datt það okkar megin,“ sagði Andri Þór Kristinsson þjálfari Blika eftir leik.
„Við skilgreinum okkar árangur ekki bara á úrslitum leikjanna en auðvitað hefur það áhrif að ná ekki oftar að klára dæmið. Við vorum ekki að hitta vel í leiknum en vonandi verður þetta til þess að mýkja úlnliðinn svolítið í framhaldinu,“ sagði Andri en hvað var það sem bar í milli að þessu sinni borið saman við alla þessa 16 tapleiki sem margir hverjir voru ansi naumir?
„Við gerðum ekkert nýtt í kvöld, við leggjum upp með að spila boltanum, treysta hver annarri og svo að læra eitthvað nýtt í hverjum leik.“