spot_img
HomeFréttirAlgjörir yfirburðir Grindavíkur

Algjörir yfirburðir Grindavíkur

Grindavík burstaði í gærkvöld Breiðablik 72-104 í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í Smáranum. Grindvíkingar hittu loksins á góðan dag en eyðimerkurganga Blika heldur áfram.

Grindvíkingar skoruðu fyrstu tólf stig leiksins. Tæpar fimm mínútur voru búnar af leiknum þegar John Davis skoraði fyrstu körfu Blika en hún dugði skammt því Grindvíkingar juku muninn enn frekar. Staðan eftir fyrsta fjórðung var 16-26 og síðan 31-54 í hálfleik.

 
 
Grindvíkingar virtust geta skorað hvar og hvenær sem þeir vildu. Blikum gekk á móti bæði illa að skapa sér færi og þegar þau gáfust nýttust þau ekki. Fráköstin fóru flest í greipar Suðurnesjamanna. Til viðbótar voru Blikarnir í stökustu vandræðum með pressuvörn gestanna þegar henni var beitt og töpuðu boltanum oftar en einu sinni við slíkar aðstæður.
 
 
Eftir þriðja leikhluta var munurinn orðinn yfir 30 stig, 50-85 en Páll Axel Vilbergsson skoraði seinustu stig leikhlutans með þriggja stiga flautukörfu. Ólík gæfa leikmanna númer 14 í hvoru liði, Ólafs Ólafssonar og John Davis í fjórða leikhluta, endurspeglaði leikinn. Troðslukóngurinn tróð boltanum eftir skyndisókn en þegar Davis ætlaði að leika það eftir hinum meginn spíttist boltinn lengst í burt af hringnum.
 
 
Bjarni Konráð Árnason bjargaði Blikum upp yfir sjötíu stigin með seinustu körfu leiksins. Hann setti ofan í þriggja stiga flautukörfu auk þess sem hann fékk vítaskot, sem hann skoraði úr, þar sem jaxlinn Nökkvi Már Jónsson braut á honum í skotinu.
 
 
„Ég ætla ekki að hrópa húrra, þetta var bara einn leikur en leikur okkar í kvöld var í átt að því sem við viljum,“ sagði Þorleifur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur í samtali við Körfuna eftir leikinn. „Við spiluðum almenninlega í kvöld sem er annað en við höfum gert til vetur.“
 
 
Þorleifur kvaðst ánægður með frammistöðu Bandaríkjamannsins Darrell Flakes, sem spilaði sinn fyrsta leik með Grindavík í kvöld. „Hann lítur vel út en á eftir að komast í betra form.“
 
 
„Ef maður getur ekki stöðvað Grindvíkinga þegar þeir keyra inn að körfunni er leikurinn tapaður,“ sagði Hrafn Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks. Lið hans hefur átt erfitt uppdráttar í haust og aðeins unnið einn af fyrstu sex leikjunum. „Við vorum alveg tilbúnir í leikinn en þegar lið tapa mörgum leikjum mega þau ekki við áföllum. Leikmenn eru þá fljótir inn í sig. Það eina sem við getum gert við því er að halda áfram að æfa og vinna okkur út úr vandanum. Lukkan er hliðholl þeim duglegu.“
 
 
John Davis var stigahæstur í liði Blika með 21 stig. Darrell Flake var stigahæstur í Grindavíkurliðinu með jafnmörg stig en Brenton Birmingham var næstur honum með nítján.
 
 
 
 
BG/GG
 

 

Fréttir
- Auglýsing -