spot_img
HomeFréttirAlgirdas fylgist grannt með HM: Raunhæft að komast í undanúrslit

Algirdas fylgist grannt með HM: Raunhæft að komast í undanúrslit

Í dag mætast Litháen og Kína kl. 15:00 í síðustu umferð 16 liða úrslitanna á HM sem fram fer í Tyrklandi. Eins og flestum er kunnugt er töluverður vinskapur millum Íslendinga og Litháa sem endurspeglast ekki síst í samvinnu þjóðanna í kringum körfuknattleiksíþróttina. Þá hefur félagið Lituancia vaxið fiskur um hrygg og meðlimir í félaginu höfðu sigur í Sumardeild KKÍ þetta sumarið. Karfan.is tók púlsinn á Algirdas Slapikas sem er einn af prímusmótorum Litháa á Íslandi en Algirdas og félagar halda til á Relax í Hafnarfirði til þess að fylgjast með sínum mönnum í Litháen á HM. 
Algirdas er 35 ára gamall og hefur verið búsettur á Íslandi í meira en 10 ár. ,,Ég hef allan tímann unnið hjá sama fyrirtæki – Trefjar ehf síðan ég kom til Íslands og er ánægður með það. Ég er giftur og á 2 syni. Eldri strákurinn minn Modestas (14 ára gamall) spilar körfubolta hjá Haukum. Yngri strákurinn minn Gerardas er 5 ára gamall. Kona mín Jolanta Slapikiene er handboltakona og öll þessi ár hefur hún spilað handbolta með FH,Val og HK. Ástæða þess að við fluttum til Íslands var að konan mín fékk samning hjá FH til að spila í marki með meistaraflokki kvenna fyrir 12 árum. Það hefur lítið breyst á þessum 12 árum – ég vinn ennþá hjá Trefjar ehf og hún spilar enn handbolta,“ sagði Algirdas en hvernig fannst honum fyrsta árið hjá Lituancia á Íslandi ganga?
 
,,Ég er mjög ánægður með síðasta tímabil okkar. Liðið er skipað eingöngu að litháískum leikmönnum (um 1.500 litháar eru búsettir á Íslandi samkvæmt Þjóðskrá Íslands) og hrein áhugamennska er á ferðinni. Þrátt fyrir slaka byrjunn (sem er alveg skiljanlegt – vorum nýliðar í deildinni) náðum við að komast í úrslitakeppni og vantaði lítið upp á það að komast hærra ( í undanúrslit),“ en rétt eins og öll ný lið varð Lituancia að byrja í 2. deildinni.
 
,,Við töpuðum fyrir Leikni og Laugdælum í riðlakeppninni og þessi 2 lið spila nú í fyrstu deild næsta tímabil. Við erum bara með þrjá leikmenn sem hafa stundað körfubolta af einhverri alvöru, þá er 5. sæti er góður árangur finnst mér,“ sagði Algirdas sem vill helst gera betur þetta árið en á síðasta tímabili.
 
,,Það er mjög erfitt að spá eitthvað fyrir næsta tímabil. Strákarnir okkar unnu Sumardeildina fyrir skömmu og þetta gefur tilefni til smá bjartsýni en á móti þá missum við tvo góða leikmenn og erfitt verður að fylla skarð þeirra (Vitalijus er að fara til Holands að klára Háskólanám og Martynas verður ekki með vegna bakmeiðsla). Við tökum þetta ár sem nýrri áskorun fyrir okkur og aðalmarkmiðið er að komast í úrslitakeppni. Að sjálfsögu viljum við að gera betur en seinasta tímabili, en það mun koma í ljós.“
 
Fylgist þið ekki vel með Litháen á HM í Tyrklandi? Hittist þið t.d. margir saman frá Litháen og horfið á leikina saman?
,,Að sjálfsögu fylgjumst við vel með HM í Tyklandi og komum saman að horfa á leiki litháíska landsliðsins sem er að spila frábærlega. Körfubolti er eiginlega okkar þjóðaríþrótt. Fyrir skömmu var opnaður nýr sportbar í Hafnarfirði sem heitir Relax og er í eigu litháískra hjóna. Þar er hægt að horfa á leiki okkar manna. Ég veit að það munu margir safnast saman og horfa á leikina. Það verður fjör og stemning. Sorglegt að engin stöð á Íslandi sýni þessa keppni og gefa fólki ekki tækifæri að kynast bestu liðum heimsins og vekja áhuga almenings á körfubolta,“ sagði Algirdas en Ísland er í hópi örfárra Evrópulanda sem ekki sýna frá keppninni!
 
Hvernig leggst svo leikur Litháens og Kína í þig?
,,Þessi leikur leggst mjög vel í mig. Þrátt fyrir að Litháen hafi unnið alla leiki sina í riðlakeppni þá eru leikirnir öllu erfiðari núna í úrslitakeppninni. Einn slakur leikur gæti kostað liðið farseðil heim. Boltinn er kringlótur og það má ekki afskrifa neitt lið. Ég er samt viss um að við komumst áfram,“ sagði Algirdas vongóður en eiga hans menn séns á titlinum?
 
,,Ég sé ekki Litháen sem sigurvegara mótsins en eftir EM, sem var mikil vonbringði fyrir okkur, varð mikil endurnýjun í landsliðinu. En núna án þessa leikmanna eins og S.Jasikevicius, R.Siskauskas, K. Lavrinovicius, R.Kaukenas er raunhæft að mínu mati að komast í undanúrslit og vera meðal fjögurra bestu. Þar verða Bandarikjamenn, Spánverjar, Tyrkir og Litháar. Samt held ég að við lendum í fjórða sæti.Vonandi skjátlast mér,“ sagði Algirdas sem heldur mikið upp á Martynas Pocius í litháíska landsliðinu. ,,Martynas Pocius er ungur leikmaður hjá Zalgiris Kaunas og hefur allt til að gerast einn af þeim bestu. Zalgiris er uppáhaldslið mitt því ég er sjálfur frá Kaunas,“ sagði Algirdas sem er einnig mikill aðdáandi Hlyns Bæringssonar.
 
,,Hann er frábær leikmaður og baráttujaxl. Góð fyrirmynd fyrir unga stráka. Er það ekki þá Snæfell sem er uppáhaldsliðið mitt á Íslandi fyrir utan Lituancia? Alltaf gaman að minnast síðan á útisigur gegn Mostra á heimavelli Íslandsmeistaranna í Stykisholmi síðasta tímabil með 20 stiga mun,“ sagði Algirdas sem væntanlega verður límdur við sjónvarpstækið næstu 2-3 klukkustundirnar þegar Litháen og Kína mætast í 16 liða úrslitum kl. 15:00 í Istanbúl í Tyrklandi.
 
Ljósmynd/ Stuðninsmannahópur Lituancia var fjölmennur á úrslitadegi Sumardeildar KKÍ en góð stemmning hefur skapast í kringum Íþróttafélag Litháa á Íslandi sem og körfuboltaliðið þeirra Lituanica. Algirdas fer þar fremstur í flokki sem helst talsmaður hópsins en hann hefur verið búsettur á Íslandi í rúman áratug.
 
Fréttir
- Auglýsing -