spot_img
HomeFréttirÁgúst: Náðum þeim markmiðum sem við settum fyrir leikinn

Ágúst: Náðum þeim markmiðum sem við settum fyrir leikinn

 
,,Ég er virkilega sáttur með liðið að koma svona til baka eftir slæman leik á föstudag, þetta var allt annað lið sem mætti til leiks í kvöld og þó sigurinn hafi verið frábær vorum við kannski ekki að spila frábærlega,“ sagði Ágúst Sigurður Björgvinsson þjálfari Hamars við Karfan.is eftir sigur Hvergerðinga á KR. Lokatölur leiksins voru 87-82 Hamri í vil þar sem Hamar gerði 11 síðustu stig leiksins.
,,Hittnin hjá okkur var ekki góð en það var hún ekki heldur hjá KR svo það kom jafnt niður á báðum liðum. Það var hinsvegar frábær barátta í hópnum og við vorum að ná þeim markmiðum sem við settum okkur fyrir leikinn,“ sagði Ágúst og viðurkenndi að hluta til að sigurinn væri óvæntur.
 
,,Þetta er óvænt miðað við spárnar en það er nú oftast þannig að það er meiri trú í leikmannahópunum en spárnar gefa til kynna. Liðið okkar er ótrúlega mikið breytt og við erum bara brattir, undirbúningstímabilið gekk vel og stemmningin er frábær,“ sagði Ágúst sem stýrir Hamri í næsta leik þann 18. október þegar Hvergerðingar mæta í Grafarvoginn og leika gegn Fjölni sem tapað hafa fyrstu tveimur leikjunum sínum á tímabilinu.
 
,,Það er búið að tala mikið um Fjölni og væntanlega er þetta skemmtilegt lið, það hefur verið sagt að þeir séu ekki lengur efnilegir og þetta er hörkulið ef ekki eitt af skemmtilegri liðum deildarinnar.“
 
Fréttir
- Auglýsing -