spot_img
HomeFréttir5 leikja taphrinu Grindvíkinga lokið

5 leikja taphrinu Grindvíkinga lokið

 Fjölnismenn tóku á móti Grindvíkingum í kvöld í Dominosdeild karla. Fyrir leik höfðu Grindvíkingar ekki riðið feitum hesti frá sínum leikjum, því þeir höfðu tapað siðustu 5  í deildinni. Fjölnismenn hinsvegar við botninn og þurftu virkilega á sigri að halda.  Svo fór að Grindvíkingar náðu loksins að sigra leik en Fjölnismenn sitja eftir með 4 stig á botni deildarinnar ásamt ÍR og Skallagrím. 
 Fjölnismenn byrjuðu leikinn betur þegar þeir tóku á móti Grindvíkingum í Dalhúsum í kvöld og höfðu náð 5 stiga forskoti þegar einungis mínúta var liðin af leiknum. Grindvíkingar tóku þó fljótt við sér og náðu yfirhöndinni stax á sjöttu mínútu og leiddu að loknum fyrsta leikhluta, 22-27. Bláklæddir Grindvíkingar komu inn í annan leikhlutann sem sterkari aðilinn og juku forskot sitt, en um miðbik leikhlutans gáfu Fjölnismenn í og náðu að jafna 50-50. Grindvíkingar skoruðu síðan tvær síðustu körfur leikhlutans og leiddu í hálfleik með 4 stigum. Línurnar voru lagðar strax í upphafi síðari hálfleiks þegar Grindvíkingar skoruðu 9 fyrstu stigin og náðu 13 stiga forystu. Þeir héldu forystunni það sem eftirlifði leiks og lönduðu að lokum 6 stiga sigri, 91-97.
 
 
Magnús Þór Gunnarsson var atkvæðamestur í liði Grindavíkur með 23 stig og 6 stoðsendingar og Rodney Alexander næststigahæstur með 21 stig og 5 fráköst. Í liði Fjölnis voru Arnþór Freyr Guðmundsson og Daron Lee Sims með 16 stig hvor og Róbert Sigurðsson með 15 stig.
 
 
Fjölnir: Arnþór Freyr Guðmundsson 16/7 fráköst, Daron Lee Sims 16/6 fráköst, Róbert Sigurðsson 15, Ólafur Torfason 13/6 fráköst, Garðar Sveinbjörnsson 11/4 fráköst, Davíð Ingi Bustion 10, Valur Sigurðsson 6, Sindri Már Kárason 4/7 fráköst, Þorgeir Freyr Gíslason 0, Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson 0, Árni Elmar Hrafnsson 0, Alexander Þór Hafþórsson 0.
Grindavík: Magnús Þór Gunnarsson 23/6 stoðsendingar, Rodney Alexander 21/5 fráköst, Ólafur Ólafsson 18/6 fráköst, Hilmir Kristjánsson 12, Ómar Örn Sævarsson 11/9 fráköst, Hinrik Guðbjartsson 10, Daníel Guðni Guðmundsson 2, Björn Steinar Brynjólfsson 0, Þorsteinn Finnbogason 0, Magnús Már Ellertsson 0, Kristófer Breki Gylfason 0.
Dómarar: Leifur S. Gardarsson, Sigmundur Már Herbertsson, Gunnlaugur Briem
 
Myndir/Texti: Bára Dröfn
 
 
Fréttir
- Auglýsing -