spot_img
HomeFréttir16 ár síðan Dream Team tók gullið

16 ár síðan Dream Team tók gullið

19:23
{mosimage}

(Næstum því ósanngjarnt að tefla fram svona liði!) 

Fyrir rúmum 16 árum síðan var lið fengið saman sem af mörgum er talið eitt besta lið í sögu hópíþrótta. Í fyrsta skipti í sögunni fengu NBA leikmenn að taka þátt í Ólympíuleikunum og keppa fyrir hönd Bandaríkjanna. Liðið átti eftir að valta yfir hvern andstæðinginn á eftir öðrum og átti ekkert lið nokkurn séns á að sigra það bandaríska.

Margt hefur runnið til sjávar síðan og nú árið 2008 hefur körfuknattleikur um allan heim eflst til muna og hafa yfirburðir Bandaríkjanna minnkað. Þó eru þeir enn taldir bestir en hver veit hvort að það haldist lengi þar sem erlendum leikmönnum fjölgar á hverju ári í NBA deildinni. Lið á Grikklandi og annarsstaðar í Evrópu hafa tekið upp á því að “kaupa” NBA leikmenn þar sem peningarnir eru miklir í Evrópu og ekkert launaþak.

Margir af bestu leikmönnum í sögu NBA deildarinnar voru í  92’ liðinu. Til dæmis má nefna Michael Jordan, Magic Johnson, Larry Bird, Patrick Ewing, Karl Malone, Charles Barkley og fleiri. Merkilegt þótti þó að Isiah Thomas var ekki valinn í liðið en í staðinn var John Stockton fenginn. Menn vildu meina að Thomas hefði frekar átt skilið að komast í liðið heldur en Stockon en skömmu eftir að liðið var tilkynnt þá skoraði hann 44 stig gegn John Stockton og Utah Jazz. Einnig voru sögusagnir um að Michael Jordan sjálfur hefði ekki vlijað fá hann í liðið og hafði hótað því að spila ekki ef Thomas yrði valinn.

Það er merkilegt að skoða árangur 1992 liðsins því annað eins burst hefur varla sést í íþróttasögunni. Yfirburðirnir voru svo miklir að liðið sigraði andstæðingana sína með 44 stiga mun að meðaltali og sigraði fyrsta leikinn meðal annars með 68 stiga mun.

Algengt var að fyrir leiki þá fengu andstæðingarnir mynd af sér við hlið NBA leikmannana og einnig eiginhandaáritanir. Skemmtilegt þykir að segja frá því þegar leikmaður var að gæta Magic Johnson í vörninni, þá horfði hann í sífellu á liðsfélaga sinn á hliðarlínunni sem var með myndavél í þeim tilgangi að ná mynd af þeim saman.

Síðan árið 1992 hafa Bandaríkjamenn sigrað tvisvar á Ólympíuleikunum eða árin 1996 (sem oft hefur verið nefnt Dream Team 2) og síðan árið 2000. Ekki náði liðið að sigra 2004 en þá voru mjög margir ungir og óreyndir leikmenn í liðinu t.a.m. LeBron James og Carmelo Anthony.

Skemmtilegar staðreyndir:

Þjálfari bandaríska liðsins, Chuck Daly, tók aldrei leikhlé á meðan leikjunum stóð.

Charles Barkley var stigahæsti maður liðsins með 18 stig að meðaltali í leik.

Liðið skoraði 46 stig í röð gegn Angólu.

10 af 12 leikmönnum liðsins voru valdir í hóp þeirra 50 bestu allra tíma árið 1996.

Hér er yfirlit yfir leikina sem liðið keppti og úrslitin:

Angola 116-48                           

Króatía 103-70

Þýskaland 111-68

Brasilía 127-83

Spánn 122-81

Púertó Ríkó 115-77

Litháen 127-76

Króatía (úrslit) 117-85

Arnar Freyr Magnússon

Fréttir
- Auglýsing -