spot_img
HomeFréttir11 bestu leikmannaskipti sumarsins

11 bestu leikmannaskipti sumarsins

 

Margt og mikið hefur átt sér stað á leikmannamarkaði NBA deildarinnar frá því að hann opnaðist aftur nú fyrr í sumar. Mörg lið hafa verið dugleg í að styrkja sig á meðan að við höfum séð nokkur fara í hina áttina, átt uppbyggingar. Hér að neðan eru 11 bestu leikmannaskipti sumarsins hingað til.

 

 

 

1. Chris Paul

Til Houston Rockets frá Los Angeles Clippers

Að leikguðinn hafi fært sig um set kemur fæstum á óvart. Það hefur verið talað um það fyrir síðustu tímabil að Clippers hafi verið, eða séu nú komnir á endastöð með tilraunir sínar til þess ð komast áfram í úrslitakeppninni. Stærsta spilið í því væntanlega að losa sinn stærsta leikmann, Chris Paul. Í Houston hittir hann fyrir leikmanninn sem varð annar í kjöri verðmætasta leikmanns síðasta tímabils, James Harden. Báðir spila þeir stöðu leikstjórnanda. Klár viðbót við annars léttleikandi og skemmtilegt lið Rockets sem áhugavert verður að sjá hvernig Paul passar inn í.

Bætir við: Rockets stóðu sig vonum framar í fyrra. Voru þriðja besta liðið í erfiðri Vesturdeild. Eigum við ekki að segja að koma Paul bæti mögulega við 5 sigrum fyrir þá í vetur.

 

 

2. Paul George 

Til Oklahoma City Thunder frá Indiana Pacers

George á aðeins eitt ár eftir af þeim samningi sem að honum var skipt á yfir til Thunder. Þó svo að svo færi að þeir væru aðeins að leigja starfskrafta kappans þetta árið, áður en hann svo gerir samning við annað lið. Þá er erfitt að sjá fyrir sér annað en að hann geri liðið samkeppnishæft á nýjan leik. Án alls vafa einn besti “two-way” leikmaður deildarinnar.

Bætir við: Koma George til Thunder breytir öllu fyrir þá. Ef að hann og Westbrook ná einhverskonar jafnvægi saman er ekki ólíklegt að þeir bæti við sig 10 sigurleikjum eða fleiri á komandi tímabili.

 

 

3. Paul Millsap

Til Denver Nuggets frá Atlanta Hawks

Eru Denver Nuggets að verða spennandi aftur? Eftir nokkur brösótt ár, virðast þeir loksins vera komnir með sinn leikmann í Nikola Jokic. Rétt misstu af úrslitakeppninni í sterku vestrinu í fyrra og bæta við sig einum besta framherja deildarinnar í Paul Millsap, sem síðustu ár hefur verið bakbeinið í góðum árangri Atlanta Hawks.

Bætir við: Nuggets rétt misstu af úrslitakeppninni á síðasta tímabili, en með tilkomu Millsap eru þeir líklegir til þess að ná inn í hana í ár. Segjum að Millsap bæti við 5 sigurleikjum.

 

 

4. JJ Redick

Til Philadelphia 76ers frá Los Angeles Clippers

Redick ætti að vera fullkomin viðbót við (alltof) ungt, en efnilegt lið 76ers. Kominn á seinni hluta ferils síns, en hefur þrátt fyrir það bætt sig báðumegin á vellinum á síðustu árum. Baneitruð þriggja stiga skytta sem kemur líklegast með reynsluna á færibandi fyrir menn eins og Markelle Fultz, Ben Simmons, Joel Embiid og Dario Saric. Er reyndar að taka yfir 20 miljónir dollara fyrir þetta næsta ár, en það skiptir minna máli þegar restin af liðinu (næstum) eru á nýliðasamning.

Bætir við: Ef að allir eru sæmilega heilir þá ættu 76ers að gera mun betur á þessu tímabili heldur en í fyrra. Segjum að tilkoma Redick bæti við 7 sigurleikjum á komandi tímabili.

 

 

5. Jimmy Butler

Til Minnesota Timberwolves frá Chicago Bulls

Afhverju Chicago senda þennan leikmann frá sér er erfitt að geta sér til um. Hefur síðan hann kom inn í deildina árið 2011 bætt sig á hverju einasta ári. Skilaði 24 stigum, 6 stoðsendingum og 6 fráköstum að meðaltali í leik í fyrra. Líkt og Redick kemur hann einnig með ákveðna reynslu inn í ungan hóp Timberwolves, þar sem hann hittir fyrir þá Karl Anthony Towns og Andrew Wiggins, sem og sinn fyrrum þjálfara hjá Bulls Tom Thibodeau.

Bætir við: Ótrúlegt en satt, þá unnu Timberwolves bara 31 leik í fyrra. Verða nær 40 sigurleikjum á næsta tímabili, mikið til vegna tilkomu Butler. Segjum að hann einn og sér bæti við 9 sigurleikjum.

 

 

6. Gordon Hayward
Til Boston Celtics frá Utah Jazz

Því miður fyrir Utah Jazz ákvað þeirra aðalstjarna að yfirgefa liðið. Ekki í fyrsta sinn svosem sem leikmenn vilja fara frá Salt Lake City en þetta var sérstaklega sárt þar sem Hayward fékk hreinlega lyklana að liðinu á fyrsta tímabili og hefur verið burðarásinn í liðinu síðan, svo ákveður hann bara að fara og Utah fá ekkert í staðinn. Fyrir Boston er þetta frábært, Hayward smellur eins og flís við rass við þetta Boston lið og hittir fyrir sinn gamla þjálfara, Brad Stevens. Hayward var með 22 stig, 5,5 fráköst og 3,5 stoðsendingar í fyrra, og mun sennilega skella í svipaða línu á næsta tímabili.

Bætir við: Boston unnu 53 leiki í fyrra og spáum við því hér á karfan.is að hann bæti við svona 3 sigrum.

 

 

7. Kentavious Caldwell-Pope
Til Los Angeles Lakers frá Detroit Pistons

KCP hefur verið ljósi punkturinn í frámunalega leiðinlegu Detroit liði undanfarin ár og mun sennilega vera að fara í fullkomnar aðstæður hjá Lakers sem völdu mikinn sendingamann í nýliðavalinu sem er ekki þekktur fyrir varnarleik. KCP er hins vegar þekktur fyrir sinn varnarleik og mun þess vegna vera í stóru hlutverki í Englaborginni í vetur. Mest sem aðalstoppari liðsins en ungt lið Lakers mun líka treysta á hann til þess að setja svona 15-18 stig í leik líka. KCP er líka ekki mikið fyrir sviðljósið sem vonandi skilar sér á hina glamúrdrengina í liðinu.

Bætir við: KCP bætir Lakers liðið mikið varnarlega og það mun skila 5 auka sigrum.

 

 

8. Rajon Rondo
Frá Chicago Bulls til New Orleans Pelicans


Rajon Rondo er einn al mest pólaríserandi leikmaður deildarinnar, frábær á sínum degi en getur líka farið með liðin sín alveg niður í svaðið þegar hann er ósáttur við gang mála. Samningurinn er ekki stór. 1 ár og 3,3 milljónir. Þess vegna er jafnvel líklegt að þetta reynist góð viðskipti hjá Pelicans, sérstaklega þar sem Rondo kann alveg að koma stórum mönnum í góðar aðstæður. Þeir eru samt með annan leikstjórnanda(Jrue Holiday) sem hefur verið betri en Rondo undanfarin ár svo maður veit ekki alveg hvernig þetta á eftir að virka.

Bætir við: Pelicans unnu 34 leiki í fyrra og Rondo mun ekki bæti miklu við, segjum 1 sigri. Aðalmálið verður að sjá hvernig Cousins og Davis ná saman.

 

9. Nick Young
Til Golden State Warriors frá Los Angeles Lakers

Fínt pikköpp fyrir Golden state sem bæta bekkinn sinn aðeins með því að fá Nick Young í staðinn fyrir Ian Clarke. Fyrir Young er þetta séns á titli og hans kraftar munu nýtast ágætlega, er fín skytta og stælarnir hafa aðeins minnkað með árunum.

Bætir við: Engu verulegu, lið Warriors stendur ekki og fellur með Nick Young. Enginn sigurleikur bætist við vegna komu Young.

 

 

10. George Hill

Til Sacramento Kings frá Utah Jazz

George Hill er það sem hann er. Góður leikstjórnandi sem spilar hörkuvörn, setur opin skot og lætur sóknarleikinn tikka. Flott viðbót við annars reynslulítið lið Sacramento Kings sem bætti reyndar við sig fleiri eldri leikmönnum(Carter og Randolph). Hill verður flott fyrirmynd fyrir hinn unga De'Aaron Fox og hefur hæðina til þess að spila skotbakvörð ef með þarf. Hill verður svona 15-5-2 leikmaður í vetur sem er akkúrat það sem Kings þurfa.

Bætir við: Segjum að koma Hill muni bæta svona 5 sigrum við það sem annars myndi vera erfitt leiktímabil fyrir Sacramento Kings.

 

 

11. D´Angelo Russell

Til Brooklyn Nets frá Los Angeles Lakers

Russell er að fara á sitt þriðja ár núna eftir að hafa verið valinn með 2. valrétti nýliðavalsins fyrir tveimur árum. Fyrsta árið heillaði hann ekki beint, erfitt fyrir hann að gera það meðan hann var algjör aukaleikari í kveðjutúr Kobe Bryant. Í fyrra hinsvegar sýndi hann á köflum afhverju hann var valinn númer tvö. Skilaði 16 stigum, 5 stoðsendingum og 4 fráköstum að meðaltali í leik. Ennþá bara tvítugur að aldri og aldrei að vita nema að þarna sé á ferðinni framtíðarstjarnan sem Brooklyn þarfnast svo sárlega. Þeir tapa allavegana ekki á að skoða þann möguleika.

Bætir við: Skulum segja að koma hans bæti við nokkrum sigurleikjum, 5 er fín tala.

 

 

 

Samantekt / Davíð Eldur & Sigurður Orri

Fréttir
- Auglýsing -