spot_img
HomeFréttirZeglinski með 30 í sigri gegn KR

Zeglinski með 30 í sigri gegn KR

Grindavík situr nú á toppi Domino´s deildar karla með 30 stig eftir öruggan 100-87 sigur á KR í gærkvöldi. Óskabyrjun á leiknum hjá gulum sem voru 24-9 yfir að loknum fyrsta leikhluta. Sammy Zeglinski fór fyrir Grindavík með 30 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar. Hjá KR var Martin Hermannsson atkvæðamestur með 22 stig og 3 stoðsendingar.
 
Leikurinn í gær var sveiflukenndur. Grindavík komst vel yfir gegn KR en þeir komu sterkir til baka. Grindavík kláraði leikinn þó sterkt og lokatölur 100:87 eins og áður greinir.
 
Byrjunarlið Grindavíkur: Aaron Broussard, Sammy Zeglinski, Þorleifur Ólafsson, Ólafur Ólafsson og Sigurður Þorsteinsson
Byrjunarlið KR: Brynjar Þór Björnsson, Helgi Már Magnússon, Brandon Richardsson, Finnur Atli Magnússon og Darshawn McClellan 
 
Leikurinn byrjaði jafnt en á fjórðu mínútu kom sterkur kafli hjá Grindavík og náðu þeir 9:0 hlaupi á KR-inga. KR-ingar tóku leikhlé. Eftir að hafa ekki skorað í fimm mínútur tókst Martin Hermannssyni að setja niður þrist og þar af leiðandi að brjóta ísinn. Grindvíkingar voru miklu ákveðnari og endaði leikhlutinn í 24:9 Grindavík í vil. 
 
Í öðrum leikhluta hélt sama spilamennskan áfram. Lítið var um kraft í KR-ingum en heimamenn voru virkilega hungraðir í þennan leik. Á áttundu mínutu annars leikhluta jókst krafturinn hjá gestunum. Krafturinn lá í vörninni og gerði það að verkum að KR-ingarnir náðu að keyra hraðann flott upp. Kristófer Acox  sýndi tilþrif eins og honum er einum lagið og tróð. Þeir komu sterkir til baka í lok fyrri hálfleiks og endaði hann í tölunum 48:39 Grindavík í vil. 
 
Í fyrri hálfleik náðu Grindvíkingar mest 22 stiga mun og voru bestir í þeirra röðum þeir Aaron Broussard með 13 stig, Sammy Zeglinski með 12 stig og Sigurður Gunnar Þorsteinsson með 8 stig, 3 stoðsendingar og 8 fráköst. Fyrir KR var það Darshawn McClellan með 9 stig, Brynjar Þór Björnsson með 7 stig og 5 fráköst og Kristófer Acox náði að setja niður 6 stig á 9 mínútum en hann kom til sögu í leiknum þegar 11 mínútur voru búnar. 
 
Seinni hálfleikur byrjaði öðruvísi, bæði lið virtust ákveðnari og klár í spennandi seinni hálfleik. KR-ingar sóttu strangt að Grindvíkingum og tókst að komast yfir í byrjun fjórða leikhluta. Spenna var í leiknum fyrstu fimm mínútur fjórða leikhluta en þá náðu Grindvíkingar að sigla fram úr á ný og knýja fram sigur 100-87.
 
Stigahæstir fyrir Grindvíkinga voru þeir Sammy Zeglinski með 30 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar. Aaron Broussard með 23 stig og 8 fráköst og Sigurður Gunnar Þorsteinsson með 13 stig, 11 fráköst og 5 stoðsendingar. 
 
Ungu strákarnir í KR liðinu voru að gera það gott og var það Martin Hermannson sem var stigahæstur með 22 stig, Kristófer Acox með 17 stig og 6 fráköst og Darshawn McClellan með 14 stig og 5 fráköst. Brynjar Þór Björnsson var með 12 stig og 7 fráköst og einnig skilaði Brandon Richardsson 12 stigum, 6 fráköstum og 6 stoðsendingum.
 
Viðtal við Björn Steinar leikmann Grindavíkur
 
Viðtal við Gunnar Sverrisson aðstoðarþjálfara KR
 
 
Umfjöllun/ Jenný Ósk Óskarsdóttir  
Fréttir
- Auglýsing -