Jón Arnór Stefánsson gerði 14 stig og tók 3 fráköst í dag þegar CAI Zaragoza jafnaði metin 1-1 gegn Valencia í 8-liða úrslitum ACB deildarinnar á Spáni. Leikurinn var þríframlengdur!
Staðan eftir venjulegan leiktíma var 90-90 og jafnvel þær lokatölur eru sjaldséðar á Spáni en Zaragoza vann að lokum leikinn 122-120! Venjulega er töluvert minna skorað í úrvalsdeildinni á Spáni en í dag voru liðin allt að því í íslenskum klæðnaði með samtals 63 þriggja stiga skot í leiknum.
Eftir fyrstu framlenginguna var 100-100 og svo 109-109 eftir aðra framlenginguna en Damjan Rudez átti lokastig leiksins og Zaragoza fögnuðu sigri eftir að hafa fengið skell í fyrsta leik gegn Valencia. Staðan er eins og áður segir 1-1 í einvíginu og mætast liðin í sínum þriðja leik næsta þriðjudag og þá á heimavelli Valencia kl. 20:30 að staðartíma.