Valsmenn leika í Iceland Express deild karla á næstu leiktíð. Krónprinsinn Yngvi Gunnlaugsson hefur nú stýrt bæði karla- og kvennaliðið félagsins á nýjan leik upp í úrvalsdeildirnar. Karlaliðið vann þar með bug á fimm ára gömlu svekkelsi en síðustu fjögur leiktímabil tapaði Valur úrslitaeinvíginu í 1. deild karla. Eftir sigur í oddaleiknum á Akureyri í kvöld mun Valur að nýju leika í deild þeirra bestu. Rúsínan í pylsuendanum… Valur verður eina félagið á landinu með öll liðin sín í úrvalsdeild í körfubolta, handbolta og fótbolta.
Valsmenn flugu norður í dag og keyrðu svo heim: ,,Þetta gerðu Þórsarar í leik tvö, greinilega sigurformúlan,“ sagði Yngvi þjálfari Vals kátur í bragði eftir að Valsmenn tryggðu sér sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
,,Þetta hefur verið mikil þrautaganga en nú var loks kominn tími á að Valur færi yfir þessa hindrun, þessa úrslitakeppni og kannski er bara sætara að komast upp núna þar sem úrslitakeppnin hefur verið okkur svo erfiður ljár í þúfu síðustu ár.“
Að leika sitt fimmta úrslitaeinvígi í 1. deild karla á jafnmörgum árum og tapa fjórum í röð, var það farið að leggjast á sálina í félagsmönnum?
,,Maður hafði vissulega hugann hjá strákum eins og Alexander Dungal og Herði Hreiðarssyni, þeir hafa örugglega einhvern tíman hugsað með sér… enn eitt árið!
Við komum núna með gott leikplan og sýndum hvað breiddin okkar skipti miklu máli, ,,plan B“ var að fara í oddaleik og ég vil segja að við spiluðum okkar besta leik á tímabilinu miðað við mikilvægi leiksins og við toppuðum á réttum tíma.“
Yngvi er Valsari að upplagi, búinn að koma karla- og kvennaliði félagsins í úrvalsdeild og því glatt á hjalla hjá þjálfaranum um þessar mundir.
,,Þetta er skemmtilegt og maður væri ekki í þessu nema hafa gaman af, það er gaman þegar gengur vel og ég hef Valsblóð í æðum svo fyrir mig er þetta ,,extra special.“ Þá er heldur ekki hægt að neita því að stefnan var að hafa alla í efstudeild á 100 ára afmæli félagsins. Geðveikin í þessu var kannski sú að ég skyldi stíga fram og segjast ætla að taka verkefnið að mér með bæði liðin, til þess að svona gangi upp þarf heppni, tvö góð lið og gott bakland.“
Fáum dylst að Valur er stór klúbbur á Íslandi og eflaust einhverjir sem segja nú: Loksins, loksins!
,,Valur á heima í úrvalsdeild, við vitum samt öll að það á enginn neitt meira skilið en hann setur í hlutina en miðað við stærð og hefð Vals finnst mörgum að við eigum heima í úrvalsdeild. Nú megum við bara ekki stoppa, heldur verðum við að halda áfram.“
Við slepptum ekki takinu af Yngva fyrr en við fengum hann til að rýna í undanúrslitarimmurnar sem framundan eru í Iceland Express deild karla.
,,Báðar viðureignirnar eru spennandi. KR-Keflavík er baneitruð rimma, Keflvíkingar eru hissa þegar þeir tapa en mér finnst KR með besta liðið og besta leikmanninn og það er sjálfstraust í þeim. Eitthvað segir mér að KR vinni þetta, eigum við ekki að segja 3-2.
Snæfell er að ströggla svolítið með Sean Burton í meiðslum og Haukar komu skemmtilega á óvart í þessum 8 liða úrslitum. Hólmarar tóku vissulega miklum breytingum frá síðustu leiktíð og Stjarnan kannski að finna sig aðeins núna en það kæmi mér ekki á óvart ef Stjarnan myndi ná að slá Snæfell út. Ég veðja samt á Snæfell, 3-2.
Ljósmynd/ Rúnar Haukur: Yngvi og Birgir Mikaelsson fagna sigri Vals fyrir norðan í kvöld.