22:45
{mosimage}
(Yngvi Gunnlaugsson þjálfari Hauka)
Haukar lönduðu sínum tólfta deildarsigri í röð í Iceland Express deild kvenna í kvöld þegar þær lögðu Hamar 73-79 í Hveragerði. Nú er venjulegri deildarkeppni lokið og við tekur keppni í A- og B-riðlum og þar á eftir kemur úrslitakeppnin. Karfan.is ræddi við Yngva Gunnlaugsson þjálfara Hauka og var hann að vonum sáttur við sigur í blómabænum Hveragerði í kvöld.
,,Bikartapið gegn KR var smá vonbrigði en við náðum okkur á strik aftur og lærðum af tapinu og unnum nú Hamar á þeirra heimavelli,“ sagði Yngvi en hann kvað þá staðreynd að Hamar hefði aldrei unnið Hauka fremur þreytta umræðu. ,,Með hverjum leik þessara liða þá styttist í tapleikinn en vonandi er langt í það,“ sagði Yngvi.
Haukar töpuðu síðast deildarleik gegn Val í Vodafonehöllinni 65-64 en það var í 2. umferð mótsins og síðan þá hafa Haukar verið ósigraðir í deildinni. Hvernig líst Yngva svo á að fara að leika núna í A-riðli?
,,Hugmyndin á bak við skiptingu deildarinnar var kannski sú að þessum ójöfnu leikjum mun fækka. Það er t.d. ekki gaman fyrir Fjölni að mæta þessum fjórum toppliðum og því átti þessi skipting að jafna deildina og gefa liðum færi á því að halda sér uppi,“ sagði Yngvi en sér hann að Fjölniskonur séu fallnar í 1. deild?
,,Þetta verður erfitt hjá Fjölni en þetta er ekki búið hjá þeim. Við í Haukum erum samt með hugann við annað en Fjölni um þessar mundir,“ sagði Yngvi sem telur að í A-riðli geti allir unnið alla. ,,Í B-riðli hef ég trú á því að Grindavík og Valur komist áfram í úrslitakeppnina en Snæfell er með ungan og efnilegan hóp svo þær eru framtíðarlið.“
Aðspurður hvort sigurinn í Hveragerði í kvöld hafi verið áreynslulaus svaraði Yngvi: ,,Alls ekki, við vorum undir í hálfleik og Ari Gunnarsson er að gera góða hluti í Hveragerði. Það samt góður gangur í okkur núna á meðan Hamar er með smá mótbyr svo það var kannski fínt að mæta þeim núna,“ sagði Yngvi en trúir hann því að þetta góða gengi Haukaliðsins haldi áfram í A-riðli?
,,Já það er óskandi en það var áfall fyrir okkur að missa Telmu en Monika Knight á eftir að komast í betra form og þá mun hún reynast okkur vel,“ sagði Yngvi um nýja bandaríska leikmann Haukaliðsins. ,,Hún kom til okkar í gegnum góð tengsl hjá TCU og hún er til reynslu eftir að við buðum henni í heimsókn. Hún var án liðs og ef hún heldur áfram að standa sig vel reynum við að halda henni,“ sagði Yngi Gunnlaugsson þjálfari Hauka.