spot_img
HomeFréttirWashington á toppi WNBA deildarinnar – staðan eftir 6 vikur

Washington á toppi WNBA deildarinnar – staðan eftir 6 vikur

WNBA deildin er nú í fullum gangi. Hér er það helsta það sem af er tímabili.

Washington Mystics með Elena Delle Donne í farabroddi sitja á toppnum á deildinni. Delle Donne meiddist reyndar á andliti í síðasta leik og óvíst hvenær hún getur spilað aftur. Stórt skarð að fylla fyrir Washington, Delle Donne skorar 15,2 stig í leik og tekur 8,2 fráköst. Washington hefur spilað frábærlega fram að þessu og því er að vona að meiðsli Delle Donne séu ekki alvarleg og að liðið haldi uppteknum hætti í fjarveru hennar.

Connecticut Sun er rétt á eftir Washington á töflunni og spilar eins og síðustu ár góðan liðsbolta. Liðinu hefur verið spáð góðu gengi undanfarin tímabil en aldrei náð að fylgja spánni algerlega eftir. Hver veit nema þetta sé þeirra ár.

Nýjasta liðið í deildinni sem spáð var efsta sætinu, Las Vegas Aces, sitja í 3. Sæti með jafn marga sigra og töp og Connecticut Sun. A‘ja Wilson og Liz Cambage sem samtals eru hátt í fjóra metra á hæð hafa farið mikinn eins og búist var við með góðri hjálp frá Kelsey Plum og Kayla McBride. Þrátt fyrir það hafa þær tapað fimm leikjum og hafa átt sérstaklega erfitt uppdráttar á móti toppliði Washington. Í síðasta leik liðana kom reyndar babb í bátinn þar sem jarðskjálfti upp á 7.1 skók Las Vegas borg, gólfið í íþróttahúsinu gekk til og brotnaði upp og ekki var haldið áfram að spila eftir hálfleik. Leikurinn, sem stóð 51-36 fyrir Washington þegar gengið var til búningsherbergja, verður kláraður seinna.

Minnesota Lynx, sem fram að síðasta tímabili var stórveldi með 4 titla undir beltinu og stjörnum prýddan hóp, situr í 4. sæti. Hópurinn í ár er gjörbreyttur. Lindsay Whalen sem hefur verið sálin í liðinu lengi lagði skónna á hilluna fyrir tímabilið. Maya Moore verður ekkert með á þessu tímabili og allt í kringum þá ákvörðun er vægast sagt dularfullt. Hún vildi fá að rifta samningi sínum fyrir tímabilið og skipta um lið en það gekk ekki upp. Moore gaf svo út að hún myndi ekki spila af persónulegum ástæðum: https://www.theplayerstribune.com/en-us/articles/maya-moore-wnba-announcement. Eflaust hangir eitthvað á spýtunni sem við fáum ekki að vita, en vonandi mun Moore snúa aftur á parketið fyrr eða síðar. Árangur reynsluminna liðs Minnesota hefur hins vegar komið skemmtilega á óvart.

Chicago Sky situr í 5. sæti og er rétt eins og Connecticut Sun með gríðarlega sterka liðsheild. Í raun á Chicago Sky hvað flestar af „hógværu“ hetjunum, leikmenn eins og Courtney Vandersloot, Allie Quigley, Gabby Williams, Diamond Deshields og Stefanie Dolson. Virkilega skemmtilegt lið að fylgjast með og þá sérstaklega sendingum frá stoðsendinga hæstu manneskju í deildinni, Courtney Vandersloot, sem lenda oft í höndunum á eiginkonu hennar Allie Quigley sem er með tæpa 50% þriggja stiga nýtingu. Nýliðinn Katie Lou Samuelson sem Chicago valdi með fjórða valrétti í nýliðavalinu hefur aðeins spilað 3 leiki vegna meiðsla, en mun líklega leika í næsta leik. Það verður spennandi að sjá hvort að hún geti gefið liðinu auka kraft. Sky á nóg inni og getur hæglega klifrað upp töfluna eða komið sterkt inn í úrslitakeppni. 

Ríkjandi meistarar Seattle Storm sitja í 6. sæti deildarinnar með 8 sigra og 8 töp. Liðið hefur lent hvað verst í meiðslapakkanum á þessu tímabili. Mikilvægasti leikmaður deildarinnar og úrslitakeppninnar í fyrra, Breanna Stewart, sleit hásin í úrslitaleik evrópudeildarinnar rétt áður en að WNBA deildin byrjaði og verður ekkert með á þessu tímabili. Reynsluboltinn og andlit liðsins, Sue Bird, þurfti að gangast undir aðgerð á hné og ekki er víst hvort hún nái eitthvað að spila í ár. Þriðja stjarna liðsins, Jewell Loyd, sneri sig illa á ökkla á dögunum og verður að minnsta kosti hvíld í tvær vikur. Það er því mikið svigrúm fyrir leikmenn sem áður hafa vermt bekkinn að stíga upp. Hingað til hefur Natasha Howard spilað frábærlega og Jordin Canada sinnt hlutverki leikstjórnanda, í fjarveru eins besta leikstjórnanda sögunnar, af prýði. Reynsluboltinn Alysha Clark skilar alltaf sínu og Sami Whitcomb hefur stigið upp og var í fyrsta sinn í byrjunarliði á dögunum. Seattle heldur sér þannig á floti og er í raun „wild card“ deildarinnar eins og er. Verður í lagi með Jewell Loyd? Sjáum við töfrakonuna Sue Bird á parketinu í ár? Eða ráða minni spámenn við áskorunina?

Los Angels Sparks urðu um helgina fyrsta liðið í deildinni til að þess að vinna 450 leiki (munum að deildin er aðeins 21. árs), þegar liðið vann Washington Mystics 98-81. Sparks féllu þó niður í 7. sæti deildarinnar eftir tap gegn Dallas Wings í gær. Liðið er gríðarlega sterkt á blaði, með Ogwumike systur og Candace Parker í framherjastöðunum og sterkan hóp bakvarða. Liðið virðist hins vegar eiga erfitt með að rífa sig frá andstæðingum og hefur einnig tapað nokkrum leikjum stórt.

Phoenix Mercury er enn án sinnar helstu stjörnu Diana Taurasi sem hefur verið að glíma við meiðsli í baki. Þrátt fyrir að vera án sirkus sendinga frá einum besta leikmanni allra tíma, hefur miðherjanum  Brittney Griner tekist að spila vel. Hún er stigahæst í deildinni með 19,6 stig í leik auk þess að taka 7,5 fráköst og blokka 2,2 skot. Reynsluboltinn Dewanna Bonner er búin að vera frábær eins og á síðasta tímabili, en Phoenix liðið situr í 8. sæti deildarinnar með 6 sigra og jafn mörg töp og bíður eflaust spennt eftir að endurheimta Taurasi.

New York Liberty, Indiana Fever, Dallas Wings og Atlanta Dream sitja í 9., 10., 11. og 12. sæti í þessari röð og því öll utan við úrslitakeppni. Indiana hefur daðrað við botninn undanfarin ár, Dallas virðist aldrei geta lyft sér upp fyrir miðja deild og New York rís og fellur og hefur lengi treyst mjög þungt á Tina Charles. Atlanta Dream er liðið sem hefur valdið mestum vonbrigðum en það situr smekkfast á botninum með aðeins 3 sigra. Liðið, sem lenti í 2 sæti í deildinni í fyrra er á blaði með skemmtilegt lið sem gæti spilað hraðan liðsbolta þrátt fyrir fjarveru hinnar stórgóðu Angel McCoughtry, en hefur síður en svo tekist að framkvæma.

Staðan um miðja deild er mjög þétt, og mjög líklegt að ýmislegt riðlist í töflunni. Deildin er jöfn og mikið um góðan liðsbolta.

Þó er ekki hægt að horfa fram hjá því að það munar gríðarlega um þær stjörnur sem spila ekki vegna meiðsla og annara ástæðna. Allt eru þetta landsliðsmenn besta landsliðs í heimi. Sue Bird er uppáhald margra aðdáenda og andlit Seattle. Diana Taurasi er að margra mati besti leikmaður sögunnar. Maya Moore og Angel McCoughtry eru báðar stjörnur sinna liða og tímabundin meiðsli Jewel Loyd, nýliðans vinsæla Katie Lou Samuelson, svo ekki sé minnst á Elena Delle Donne eru ekki til að bæta stöðuna. Ríkjandi MVP deildarinnar, Breanna Stewart, meiðist í úrslitaleik evrópudeildarinnar. Hennar meiðsli hafa kynnt undir eldi umræðna um jafnrétti og launamál. Flestir WNBA leikmenn spila í deildum í Evrópu eða Asíu yfir vetrartímann, vegna þess hvað WNBA tímabilið er stutt og launin lág. Leikmenn deildarinnar eru því að spila allan ársins hring, fá enga hvíld og varla „pre-season.“ Nú meiðist besti leikmaður WNBA í leik í annarri deild, sem hún spilar í vegna þess að þar fær hún miklu betri laun. Það lítur ekki vel út og leggur áherslu á mikilvægi umræðunnar.

Stjörnuleikur deildarinnar verður því ekki eins stjörnum prýddur og hægt er, en eflaust fáum við að sjá einhverjar nýjar stjörnur rísa. „Hógværu“ hetjurnar sem minnst var á hér á undan eru eflaust þyrstar í að komast loksins í stjörnuleikinn og sýna hvað í þeim býr. Stjörnuleikurinn verður haldinn í Las Vegas 27. júlí. Umgjörð leikjanna í Las Vegas hefur verið með skemmtilegasta móti og því verður spennandi að sjá hvað Vegas dregur fram úr erminni yfir stjörnuleikshelgina.

Nú er um að gera að halda áfram að fylgjast með og sjá hvort að þetta tímabil verði ár „hógværu“ hetjanna eða hvort Elena Delle Donne fari með Washington alla leið.

Leikjadagskrá má sjá hér: https://www.wnba.com/schedule/ , en í dag eru til dæmis 4 leikir á dagskránni.

Umfjöllun: Hanna Þráinsdóttir

Fréttir
- Auglýsing -