spot_img
HomeFréttirWade og Bosh segja upp samningi við Miami Heat

Wade og Bosh segja upp samningi við Miami Heat

Dwyane Wade og Chris Bosh hafa báðir nýtt uppsagnarákvæði í samningi sínum við Miami Heat liðið og eru nú með lausan samning líkt og LeBron James. Ég hafði bent hér á áður að þetta væri planið allan tímann – að allir segðu upp samningi sínum og semdu aftur fyrir minni pening. Það virðist hins vegar ekki ætla að verða svo einfalt.
 
LeBron James hefur, samkvæmt heimildum véfréttar NBA deildarinnar Adrian Wojnarowski, farið fram á hámarkssamning samkvæmt kjarasamningi NBA deildarinnar og leikmanna hennar.  Ólíkt því sem allir héldu áður, að LeBron, Wade og Bosh ætluðu allir að lækka launin sín til að fá inn betri mannskap, þá hefur kóngurinn sagt restinni af hirðinni hvernig málin standa:  ”Ég nenni ekki svona dúttli fyrir $20 milljónir á ári. Ég er eini maðurinn sem getur eitthvað í þessu liði og ég á að fá borgað fyrir það. Þið hinir ráðið hvað þið gerið.”
 
LeBron James er ekki lengur að axla ábyrgð á slæmu gengi liðsins í úrslitunum. Hann er að kalla út restina af liðinu. “Hvað ætlið þið að gera? Ég er four time MVP og ef þið viljið halda áfram að vinna með mér takið þið feita launalækkun og komið aftur.”
 
LeBron James hefur alltaf verið mikill egóisti út á við. “The Chosen One” flúrið á bakinu á honum segir nóg um það þó hann hafi alveg bakkað upp þá fullyrðingu með leik sínum. James hefur hins vegar alltaf verið mikill liðsspilari. Sætti sig við allt of lág laun þegar hann ákvað að flytja til Miami svo hann ætti séns á titli. Jafnvel var blaðrað um það hvort þetta yrði liðið hans Wade eða LeBron, þótt heimsbyggðin ölli vissi hvor væri betri körfuboltaleikmaður. Hann sagði ekki neitt við því.
 
Þessi tími er liðinn, ef marka má þróun síðustu daga. Wade og Bosh spiluðu eins og trúðar í þessari úrslitaseríu (þó að ég vilji nú kenna kerfum Spoelstra oft á tíðum um slaka nýtingu á Bosh í þessum leikjum) og nú verður bara að endurmeta stöðuna. LeBron James er orðinn þreyttur á að draga vagninn fyrir hina tvo farþegana sem fá jafnmikið greitt fyrir að hanga á bakinu á honum.
 
Vissulega setur þetta Pat Riley í erfiða stöðu. Hann sér nú fram á að þurfa að festa um 35% af leyfilegum launakostnaði liðsins undir þakinu í laun LeBron James og deila restinni á alla hina leikmennina.
 
Það er vitað mál að öll lið í deildinni sem á annað borð hafa efni á því munu bjóða LeBron hámarkssamning án þess að hugsa um það og er því vitað mál að Riley gerir það. Vandamálið hins vegar er hvort hann geti boðið James sitt og Bosh, Wade og þriðju stjörnunni sem planað er að bæta við, það sem þeir sætta sig við. Í ofanálagt þarf að fylla bekkinn af mönnum sem geta spilað körfubolta ólíkt því sem þeir höfðu fyrr í mánuðinum.
 
Nú eftir að þremenningarnir sögðu upp samningum sínum eru aðeins $2 milljónir sem liðið er samningsbundið til að greiða næsta vetur. Udonis Haslem sagði einnig upp sínum samningi en hann átti aðeins $4,6 milljónir inni hjá liðinu. Chris “Birdman” Andersen sagði upp sínum samningi um miðjan mánuðinn og ætlar að leita á önnur mið. Þá er aðeins eftir Norris Cole sem á þessar $2 milljónir sem eftir eru en sæti hans í liðinu næsta vetur er engan veginn tryggt.
 
Svigrúmið fyrir Riley til að púsla saman samningum sem gætu gengið upp á næstu árum er því mjög gott. Spurning er bara hve langt hann getur þrýst hinum tveimur niður.
 
LeBron James er með pálmann í höndunum. Hann er búinn að segja Pat Riley að þetta lið sé ekki nógu gott og það þurfi að bæta. Ástandið í úrslitaseríunni var orðið nákvæmlega eins og það var þegar hann dró Cleveland Cavaliers í gegnum úrslitakeppnina hér áður fyrr. LeBron James og fjórar umferðakeilur sem biðu eftir að hann gerði eitthvað. Hann er búinn að segja Riley líka að hann vilji fá greitt fyrir sitt framlag sem er langt umfram það sem sést hjá öðrum í liðinu. Hann er búinn að segja Wade og Bosh að það sé í þeirra höndum að halda hópnum saman vilji þeir það og halda áfram að vinna titla. Hann er einnig búinn að senda þau skilaboð út til annarra liða í deildinni að hafi einhver svigrúm og metnað til að búa til meistaralið sé hann reiðubúinn til þjónustu – gegn sanngjarnri greiðslu að sjálfsögðu.
 
LeBron James stjórnar NBA deildinni, sama hvaða titil Adam Silver ber. 
Fréttir
- Auglýsing -