Haukar unnu Hamar í dag 70-58 í stórskemmtilegum leik í Schenker-höllinni á Ásvöllum í Powerade-bikarnum. Haukastelpur lögðu grunn að sigri í 2. leikhluta en þá lokaði vörnin gjörsamlega á Hamarsstelpur sem máttu sín lítils gegn sterkri svæðisvörn heimastúlkna.
Fyrsti leikhluti var jafn þar sem liðin skiptust á körfum. Hamarsliðið hafði þó frumkvæðið og leiddi 16-19 þegar skammt var til loka fyrsta leikhluta. Fanney Guðmundsdóttir var sterk í fyrsta leikhluta en hún skoraði sjö af fyrstu tíu stigum Hamarsstúlkna. Katherine Graham fékk sína aðra villu á lokasekúndum leikhlutans þegar hún keyrði að körfu Haukakvenna og hafði það mikil áhrif á leik Hamars. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 18-19 gestunum í vil.
Haukavélin fór hressilega í gang í öðrum leikhluta en þær héldu Hamri stigalausum fram yfir miðjan annan leikhluta en Haukar skoruðu 20 stig í röð. Þær breyttu stöðunni úr 16-19 í 36-19. Svæðisvörn Hamars var hriplek og Haukar gengu á lagið. Hamar fékk fullt af fínum skotum í sókninni en þau vildu ekki ofaní á þessum kafla. En Haukaliðið var gífurlega grimmt í sóknarfráköstunum og fengu ítrekað fleiri en eitt skot í hverri sókn. Staðan í hálfleik var 43-23 Haukum í vil.
Í þriðja leikhluta skiptust liðin á körfum en þó höfðu Haukar frumkvæðið allan tímann. En Lárus Jónsson, þjálfari Hamars, skipti yfir í 1-3-1 svæðisvörn í seinni hálfleik en hún virkaði mun betur heldur en 2-3 svæðið sem Hamar spilaði í fyrri hálfleik. Sóknin hjá Haukum hikstaði þegar vörnin hjá Hamrii þéttist og minnkuðu þær muninn jafnt og þétt. Munaði mest um framlag Katherine Graham sem var í villuvandræðum í fyrri hálfleik. Þær náðu næstum því að skapa æsispennandi lokamínútur en Haukaliðið hélt haus og hafði að lokum flottan 70-58 sigur.
Sóknin hjá Haukum var ekki alveg nógu skilvirk í seinni hálfleik en vörnin hélt og var það lykilatriðið í sigri Hauka. Jence Ann Rhodes var gífurlega sterk hjá Haukum og Gunnhildur Gunnarsdóttir kom gífurlega sterk af bekknum. Hamarsliðið átti flotta spretti og það er mikið spunnið í þetta unga lið. Erlendu leikmenn liðsins eru flottir ásamt því að Fanney Guðmundsdóttir og Íris Ásgeirsdóttir sýndu flotta takta. Marín Laufey Davíðsdóttir átti góðan leik en hún fékk erfitt verkefni í vörninni þar sem hún dekkaði m.a. Hope Elam.
Stigahæst hjá Haukum var Jende Ann Rhodes með 18 stig, en hún tók einnig 12 fráksöt og tók 8 fráköst og daðraði við þrennuna frægu. Hope Elam var með 15 stig og Íris Sverrisdóttir setti 14 stig. Hjá Hamri var Katherine Graham með 21 stig og Fanney Lind Guðmundsdóttir setti 17 stig.
Mynd úr safni