Ísland tapaði nokkuð stórt gegn Serbíu í leik um 5-8 sæti A-deildar Evrópumóts U20 landsliða. Ísland fór enn og aftur illa af stað í leiknum og gekk illa að koma sér aftur inní leikinn.
Leikmenn sem höfðu leikið færri mínútur á mótinu hingað til fengu tækifæri í seinni hálfleik og börðust hetjulega en það dugði ekki til og hafði Serbía 89-71 sigur á Íslandi. Tölfræði leiksins má finna hér.
Ísland mætir því Þýskalandi á morgun í leik um 7 sæti mótsins en sá leikur hefst klukkan 13:30 að íslenskum tíma.
Gangur leiksins:
Leikurinn fór rólega af stað fyrir Ísland, leikmenn virtust stemmningslausir og illa upplagðir fyrir verkefnið. Serbía komst í 16-7 snemma leiks og íslenska vörnin sem hefur verið frábær á mótinu hélt ekki vatni né vindum. Smá stemmningsendir á fyrsta leikhluta sem endaði með ævintýralegri þriggja stiga körfu Sæþórs Kristjánssonar kom muninum niður í sex stig og einhver von til staðar að liðið kæmi til baka líkt og oft áður í mótinu.
Slíkt var ekki uppá teningnum í dag. Vörn Íslands náði engum stoppum í leiknum og þrátt fyrir ágætan sóknarleik þá jók Serbía muninn enn meira og fór með tuttugu stiga forystu inní hálfleikinn 33-53.
Serbía jók muninn enn meira í þriðja leikhluta. Íslandi gekk illa sóknarlega í leikhlutanum á meðan Serbía náði góðum sóknum. Í leikhlutanum komu inná leikmenn sem höfðu spilað minna á mótinu til þessa inná og léku mikilvægar mínútur. Það kom allt önnur orka með þeim en leikmenn á borð við fyrrnefndan Sæþór og Eyjólf Halldórsson létu finna fyrir sér og spiluðu vel.
Íslenska liðið hafði engu að tapa í síðasta leikfjórðungnum og tókst að leika fínan sóknarleik þar sem Tryggvi Snær fór fremstur í flokki. Hetjuleg barátta liðsins í loksin lagaði stöðuna aðeins en leiknum lauk með 71-89 tapi gegn gríðarlega sterku liði Serbíu.
Hetjan:
Ingvi Þór Guðmundssson leikmaður Íslands kom inn af bekknum og var einn af fáum leikmönnum Íslands sem sýndu þor og baráttu í erfiðum leik. Hann tók erfið skot og djöflaðist allan leikinn í sterkum bakvörðum Serbíu. Hann endaði einnig með 11 stig, 3 fráköst, 5 stoðsednginar og 63% skotnýtingu fyrir innan þriggja stiga línuna.
Auk hans var Tryggvi Snær Hlinason gríðarlega öflugur með 22 stig, 9 fráköst og 5 varða bolta. Þess má geta að þetta er eini leikur Tryggva á mótinu þar sem hann er ekki með tvöfalda tvennu en eitt frákast vantar uppá það. Einnig voru Sæþór Elmar Kristjánsson og Eyjólfur Ásberg Halldórsson öflugir af bekknum og voru báðir með níu stig.
Kjarninn:
Serbía er með ótrúlega sterkt lið á þessu móti en hafa ekki náð að spila nægilega vel saman í stórum leikjum. Liðið hitti ótrúlega í dag og lék sér að vörn Íslands á nokkrum tímabilum. Ísland þarf líkt og gegn Ísrael að hitta á nánast fullkominn leik til að spila með svona liði en íslensku leikmennirnir voru margir ansi langt frá sínu besta í dag.
Leikmenn sem hafa spilað mikið virtust vindlausir og nánast eins og spennufallið eftir átta liða úrslitin sitji enn í mönnum. Menn voru á hælunum varnarlega og tóku slakar ákvarðanatökur á báðum endum vallarinns. Aftur á móti var sérlega gaman að sjá leikmenn sem höfðu þurft að sætta sig við mikla bekkjarsetu koma inná í hálf vonlausri stöðu og skilja allt eftir á gólfinu.
Framtíðin er björt hjá þessu liði og líklega er engin svekktari með að ná ekki að setja saman góða frammistöðu í dag og einmitt leikmennirnir sjálfir. Það er hálf galið að fylgjast með leikmönnum vera brjálaðir eftir tap gegn Serbíu í keppni meðal átta bestu landsliða evrópu. Árangurinn er mikill en nú er einn leikur eftir. Það er Þýskaland á morgun (sunnudag) um sjöunda sæti mótsins. Leikmenn eru að fá magnað tækifæri til að sýna sig og sanna á þessu móti og ef liðið einbeitir sér af því að njóta síðustu andartakana og eru staðráðnir í að enda mótið á sigri þá geta menn gengið uppréttir frá borði.
Viðtöl eftir leik: (Væntanlegt)
Umfjöllun, viðtöl og myndir / Ólafur Þór Jónsson