spot_img
HomeFréttirVíkurfréttir: Gefur 80 snakkpoka í kvöld

Víkurfréttir: Gefur 80 snakkpoka í kvöld

Stórskyttan Magnús Gunnarsson komst í fréttirnar á dögunum en af allt öðrum ástæðum en tengjast hæfileikum hans á körfuboltavellinum. Flestir hafa nú heyrt af því er Magnús gæddi sér á Lays snakki á bekknum í DHL-höllinni gegn KR en þá var Magnús nýkominn úr maga- og ristilspeglun. Þeir hjá Ölgerðinni sem eru með umboð fyrir snakkið fræga gátu hreinlega ekki annað en að færa Magnúsi kassa af Lays flögum að gjöf.
„Þetta er bara fyndið og greinilega fínasta auglýsing fyrir þá. Mér fannst þetta vera hálfgerð gúrkutíð hjá fréttamönnum en þeir hefðu mátt fjalla meira um leikinn sjálfan en að gera eitthvert stórmál úr þessu. En það virðist vera að Ölgerðin sé að græða á þessu, sem er bara af hinu góða,“ sagði Magnús þegar blaðamaður Víkurfrétta færði honum kassann með Lays flögunum.
 
Í leiknum gegn Þór Þorlákshöfn á dögunum þá veifuðu einhverjir áhorfendur þeirra snakkpokum en Maggi varð ekki mikið var við það. „Eina sem ég heyrði var að þeir sögðu að ég hefði grennst, ætli það hafi ekki verið út af snakkinu. Þeir mega svo endilega koma á leikina hjá mér og veifa snakkpokum í stúkunni, þá fer allt ofaní hjá mér,“ segir Magnús kokhraustur.
 
Fréttir
- Auglýsing -