Undir 16 ára lið drengja fer vel af stað á Evrópumótinu í Búlgaríu. Eftir að hafa sigrað Sviss í fyrsta leik mótsins í gær, fóru þeir nokkuð auðveldlega í gegnum Rúmeníu fyrr í dag. Við heyrðum í þjálfara liðsins, Viðari Erni Hafsteinssyni og spurðum hann aðeins út í mótið og þessa góðu byrjun.
Sigra í fyrstu tveimur leikjunum vill Viðar skrifa á góðan varnarleik liðsins í öðrum og þriðja leikhluta leikjanna. Þá segir hann einnig flott að allir séu að koma inn og leggja eitthvað gott í púkkið.
Varðandi þessa góðu byrjun gegn Sviss og Rúmeníu segir hann liðið þó vera á pari miðað við væntingar fyrir mót. Þeir hafi þó ekki vitað mikið um þá andstæðinga, fyrir utan myndband sem þeir fengu af Sviss, sem að hans sögn gerði lítið fyrir þá.
Næstu leikir verða jafnvel erfiðari fyrir liðið, sem situr þó sem stendur eitt á toppi riðils síns. Leikirnir sem liðið á eftir eru gegn Hvíta-Rússlandi á morgun, svo leika þeir gegn Grikklandi og Belgíu. Viðar er bjartsýnn á möguleika liðsins, en segir leik morgundagsins ansi mikilvægan ætli þeir sér að komast í 8 liða úrslitin. Varðandi síðustu tvo leikina segir hann "Annars eru Belgar og Grikkir sterkir en ég tel okkur geta gert flotta hluti ef við höldum áfram að stíga á bensínið og bæta við okkur snúning"
Næsti leikur liðsins er á morgun kl. 17:30 gegn Hvíta Rússlandi. Hægt verður að fylgjast með beinni útsendingu hér.