Fréttaritari körfunnar ræddi við Magnús Þór Gunnarsson í liði Njarðvíkur eftir leik Fjölnis og Njarðvíkur í gær. Var hann alls ekki ánægður með leik sinna manna og er það skiljanlegt. Njarðvíkurliðið var langt frá sínu besta og vantaði alla baráttu og gleði sem einkenndi leik Njarðvíkur gegn Grindavíkur fyrir stuttu síðan.
Magnús hafði þetta að segja um leikinn.
„Þetta var ekki flottur leikur hjá okkur en við gerðum það sem við þurftum til að vinna. Við spiluðum hræðilega allan leikinn.“
Leikurinn ykkar skánaði nú aðeins í lok leiksins.
„Jújú, en við skoruðum bara meira en þeir, við spiluðum hræðilega í þessum leik, við náðum bara ekki að gíra okkur upp fyrir þennan leik, það er erfitt að gíra sig upp á móti liðum sem við höldum að séu ekki í toppbaráttunni. Þannig er það bara og þannig er það alltaf á móti svona liðum, alveg sama hvað maður er búin að spila mörgum sinnum svona leiki. Það er bara eitthvað í hausnum á mönnum. En okkur tókst að vinna þetta og það er það sem skiptir máli.“
Verðum að þora að taka opnu skotin.
Níels Dungal var sáttur við fyrri hluta leiksins en telur að reynsluleysi liðsins hafi hrjáð þá í fjórða leikhluta þegar Njarðvík gerði út um leikinn auk þess sem leikmenn liðsins nýttu sér ekki nógu vel góð skotfæri sem liðið fékk fyrir utan teig.
„Þetta var ágætis leikur hjá okkur framan af svo missum við Smith út af með 4 villur í lok þriðja leikhluta og hann gat ekki beitt sér alveg eftir það, það hindraði okkur í fráköstum undir körfunni en Njarðvíkingar eru náttúrulega með hörkulið, Maggi og Jói og þessa kalla.“
Þið spiluðuð vel fyrstu 3 leikhlutana og síðan hrundi leikur liðsins í 4ja leikhluta.
„Það er kannski reynsluleysi, við vorum að spila ágætis bolta og fengum fín skot, þau voru bara ekki að fara ofan í, því miður.“
Skotmenn Fjölnis virkuðuð frekar ragir til að skjóta fyrir utan teig, þeir voru oft með opin færi en tóku ekki skotin.
„Við sem vorum á kantinum vorum ekki nógu duglegir að taka þessi opnu skot, við verðum að taka þessi opnu skot til að opna betur um fyrir stóru mönnunum inn í teig. Við verðum að vera óhræddir við að taka þessi skot.“
Bryndís Gunnlaugsdóttir