spot_img
HomeFréttirVesturbæingar kynda upp fyrir leikinn annað kvöld

Vesturbæingar kynda upp fyrir leikinn annað kvöld

Forsvarsmenn og stuðningsmenn körfuknattleiksdeildar KR eru byrjaðir að kynda upp fyrir leik liðsins gegn Keflavík á morgun á samskiptavefnum twitter.  Þar hafa menn verið að rifja upp stórleiki sem liðin hafa háð í gegnum tíðina og tilþrifin sem fylgja.  
Þar hafa þeir til dæmis dregið fram gamalt myndband af jöfnunarkörfu Jóns Arnórs gegn Keflavík í úrslitakeppninni árið 2009.  Liðin áttust við í undanúrslitum það árið og vann KR seríuna 3-0 en það var eftir fjórfalda framlengingu í þriðja leik sem menn tala um sem einn eftirminnilegasta leik síðari ára.  Jöfnunarkarfa Jóns Arnórs í stöðunni 105-108 er gott dæmi um af hverju Jón Arnór er talinn með betri körfuknattleiksmönnum sem Ísland á.  Hér má sjá myndband af lokamínútum leiksins og eins og glöggir sjá var stemming hreint út sagt frábær.  KR varð svo íslandsmeistari það árið eftir svakalegt einvígi við Grindavík.
 

Annar leikur sem menn hafa rifjað upp er leikur Keflavík og KR sem fór fram á síðustu leiktíð.  Þar mættust liðin líka í undanúrslitum og þriðji leikur rimmunar var vægast sagt svakalegur.  Leikurinn endaði 135-139 fyrir Keflavík eftir eina framlengingu.  Andrija Ciric fór fyrir Keflvíkingum og skoraði heil 42 stig í leiknum.  Myndbandið sýnir jöfnunarkörfu Brynjars Þórs langt fyrir utan þriggja stiga línuna með Hörð Axel í andlitinu.  Keflvíkingar myndu eflaust rifja upp framlenginguna en ekki jöfnunarkörfu Brynjars en það efast þó ekki nokkur maður um að þetta er snilldarlega gert.  KR varð einnig íslandsmeistari þetta árið eftir frábært einvígi við Stjörnuna.  Hér má sjá myndbandið af jöfnunarkörfu Brynjars og stutt viðtal við hann eftir leik.  

Miðað við þessi tilþrif má búast við svakalegum leik í DHL höllinni annað kvöld.

 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -