spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaVestri vann nauman sigur á Flúðum

Vestri vann nauman sigur á Flúðum

Í undanförnum leikjum Hrunamanna hafa þeir átt í basli með að ná fráköstum eftir að boltinn skoppar af körfuhringnum sem þeir verja. Mótherjar þeirra hafa sótt þessa lausu bolta svo til auðveldlega og náð að skapa sér annað tækifæri til þess að skora eftir misheppnuð skot. Hrunamenn vantar hæð í liðið sitt eftir að Jasmin Perkovic þurfti að yfirgefa þá. Þeir sakna hans.

Í kvöld léku Hrunamenn gegn Vestra í íþróttahúsinu á Flúðum. Vestri er með marga hávaxna leikmenn sem taka pláss og eru grimmir í fráköstunum. Þá munar mest um Marko Dmitrovic og Nemanja Knezevic. Þeir hafa slíka hæð og styrk að þeir geta leyft sér að spila boltanum á milli sín inni í teignum. Þeir hafa líka þolinmæði til þess að bíða með boltann í höndunum þótt Hrunamenn setji tvo varnarmenn á þá til að verjast þeim og þeir hafa gott auga fyrir sendingum á samherja sem ráðast án bolta bakdyramegin að körfunni og grípa og skora þannig auðveldar körfur. Þetta gera þeir virkilega vel.

Hrunamenn tefldu fram nýjum leikmanni í kvöld. Sá kemur frá Haukum og heitir Yngvi Freyr Óskarsson. Yngvi Freyr tók 5 fráköst, hélt mönnum frá körfunni og skoraði 8 stig. Það verður áhugavert að fylgjast með aðlögun hans að leik liðsins í næstu leikjum. Hann býr yfir eiginleikum sem Hrunamenn hafa ekki haft í nægilega ríkum mæli í leikmannahópnum. Koma hans í liðið mun styrkja það.

Vestri hafði yfirhöndina framan af 1. fjórðungi leiksins en þegar líða tók á hann hvíldi Pétur Már þjálfari Vestra Marko og Nemanja og við það fór allur taktur úr samleik liðsins. Hrunamenn gengu á lagið og náðu að jafna leikinn og komast yfir áður en fjórðungnum lauk.

Í 2. fjórðungi héldu Hrunamenn áfram að skora eina og eina körfu þótt leikur þeirra hafi aldrei náð verulegu flugi. Á meðan hélt Vestravélin áfram að hökta. Forysta heimamanna var lengi í kringum 8 stigin. Eftir leikhlé Péturs Más þéttu Vestramenn vörnina, fylltu teiginn og lokuðu leiðinni að körfunni. Með því móti náðu þeir að saxa á forskot heimamanna. Staðan eftir tvo leikhluta var 43-40 Hrunamönnum í vil.

Leikurinn fór ágætlega af stað í seinni háfleik þótt lítið væri um skoraðar körfur. Eyþór Orri stýrði sóknum Hrunumanna vel á þeim kafla. Friðrik Heiðar í liði Vestra lét til sín taka báðu megin vallarins og Corey Taite var góður fyrir Hrunamenn. Þegar boltinn fékk að ganga á milli Hrunamannanna var eðlilegt flæði í leik liðsins sem skilaði sér í skoruðum körfum.

Í þriðja leikhluta seig Vestri fram úr. Mikið var um mistök á báða bóga og lítið skorað. Draga tók af Hrunamanninum Karlo Lebo eftir stöðuga baráttu hans við stóru mennina í Vestra en hann hélt áfram að verja skot og skora við og við en hindranir hans urðu að minna gagni fyrir samherjana eftir því sem leið á leikinn og þróttur hans dvínaði. Lykilmenn í liði Vestra virtust líka vera þreyttir. Nemanja lét minnsta mótlæti fara í skapið á sér, hengdi haus og tuðaði yfir öllum dómum. Framkoma hans á þessum kafla truflaði bersýnilega samherja hans. Það var þeirra lán að sóknarleikur Hrunamanna var slakur um þetta leyti og einkenndist af einstaklingsframtaki og ótímabærum skotum sem engu skilaði. Þegar þarna var komið sögu fór Hilmir Hallgrímsson mikinn í liði Vestra.

Þegar mínúta var eftir af leiknum var staðan 72-74 fyrir Vestra og Hrunamenn í sókn. Vestri lokar öllum leiðum fyrir Hrunamenn að körfunni og þeir þurfa að enda sóknina með lélegu þriggja stiga skoti sem geigar. Vestri brunar í sókn þar sem Nemanja dvelur lengur en þrjár sekúndur í teignum og boltinn er dæmdur af liðinu. Árni tekur leikhlé og Corey jafnar eftir vel lukkaða leikfléttu. Þá eru 20 sekúndur á leikklukkunni og Pétur Már tekur leikhlé. Gabríel Aderstag ræðst á körfuna og fær 2 vítaskot. Hann hittir báðum skotunum. Árni Þór tekur aftur leikhlé en liðið hefur aðeins 6,4 sekúndur til þess að ljúka sóknarfléttunni sem Árni teiknar upp. Vestri setur tvo menn á Corey, einn lítinn og snöggan og annan hávaxinn. Hrunamenn koma ekki skoti á körfuna. Niðurstaðan sigur Vestra 74-76.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Karl Hallgrímsson

Fréttir
- Auglýsing -