11:00
{mosimage}
(Yngvi er að margra sögn kominn heim þó hann hafi ekki farið langt)
Næstu tvö árin hið minnsta mun Yngvi Gunnlaugsson vera við stjórnartaumana hjá margföldum meisturum Haukakvenna og tekur hann við starfinu af félaga sínum Ágústi Björgvinssyni. Yngvi sagði í samtali við Karfan.is að það væri mikill misskilningur að Haukar væru að fara inn í næstu leiktíð til að verja titlana sína heldur væri markmiðið að vinna nýja.
,,Það má segja að ég hafi alltaf verið með annan fótinn hér heima,” sagði Yngvi sem þjálfaði Breiðablik á síðustu leiktíð en var um leið þjálfari hjá nokkrum yngri flokkum Hauka. ,,Breiðablik fékk mig bara að láni en vera mín hjá félaginu var dýrmæt reynsla,” sagði Yngvi en þegar hann tók við Blikaliðinu höfðu þær grænu tapað sjö leikjum í röð á síðustu leiktíð en með tilkomu hans var ekki lengi að bíða fyrsta sigursins.
Yngvi tekur við nokkuð breyttu Haukaliði af Ágústi Björgvinssyni og hafa þær Pálína Gunnlaugsdóttir og Helena Sverrisdóttir yfirgefið félagið. Helena heldur erlendis í nám en Pálína hefur samið við erkifjendur Hauka úr Keflavík. ,,Ég er ekki ókunnugur þeim stelpum sem eru í liðinu því ég hef á einhverjum tímapunkti þjálfað þær allar, hvort sem það var í yngri flokkum, landsliðum eða í meistaraflokki,” sagði Yngvi.
Miðherjinn Telma Fjalarsdóttir fylgdi Yngva í Hauka frá Blikum og sagði Yngvi Telmu vera ánægjulega viðbót við liðið. ,,Hún er klárlega einn besti íþróttamaðurinn í deildinni og við erum með firnasterkan hóp því yngri leikmenn eru að stíga upp í meistaraflokkinn,” sagði Yngvi sem vílar það ekki fyrir sér að henda ungu leikmönnunum beint út í djúpu laugina.
,,Ég er þannig þjálfari. Mér hefur alltaf fundist gaman að gefa yngri leikmönnum tækifæri og á því verður engin breyting hjá mér,” sagði Yngvi en hver er staða Haukaliðsins í dag gagnvart öðrum liðum? ,,Keflavík hlýtur að vera með sigurstranglegasta liðið þessa stundina en Keflvíkingar hafa líka verið að setja pressu á sjálfa sig t.d. með ráðningu Pálínu. Við erum engu að síður enn á meðal toppliðanna og ætlum okkur stóra hluti,” sagði Yngvi.
Aðspurður hvort ekki væri krefjandi að verja alla titlana sem nú prýða Ásvelli svaraði Yngvi: ,,Þetta er ekki spurning um að verja titla heldur vinna nýja. Það tekur enginn Íslandsmeistaratitilinn af Haukum og það verður enginn Íslandsmeistari aftur leiktíðina 2006-2007. Þetta er bara keppni um titilinn á næstu leiktíð því við eigum ekkert þessa titla heldur þurfum við að vinna fyrir þeim á hverju ári.”
Ágúst Björgvinsson, fyrrum þjálfari Haukakvenna var eftir síðustu leiktíð valinn besti þjálfarinn í Iceland Express deild kvenna en hvað mun Yngvi taka mér sér inn í starfið? ,,Það er augljóst að með nýjum þjálfara koma breyttar áherslur, ég vann lengi með Ágústi og ljóst að mitt starf mun kannski í einhverjum hlutum svipa til hans en með nýjum þjálfara koma líka nýjar áherslur. Við erum með ungt lið og eigum fullt inni og því hlakka ég til næsta tímabils og þetta verður fyrst og fremst skemmtilegt hjá okkur.”
{mosimage}