Í gærkvöldi varð ljóst að Íslandsmeistarar Hauka og Keflavík munu leika til úrslita um Subwaybikarinn í kvennaflokki. Keflvíkingar lögðu Fjölni í undanúrslitum með afgerandi hætti og slíkt hið sama gerðu Haukar gegn Njarðvík. Árið 2007 mættust Haukar og Keflavík í einhverjum mest spennandi bikarúrslitaleik sem sögur fara af í kvennaflokki. Haukar höfðu 77-78 sigur í leiknum sem var afar hjartastyrkjandi.
Miklar breytingar hafa vitaskuld orðið á liðunum síðan 2007 en þá var Ágúst Sigurður Björgvinsson við stjórnartaumana hjá Haukum en Ágúst stýrir eins og kunnugt er karla- og kvennaliðum Hamars í dag. Keflvíkingar eru reyndar með sama þjálfara, Jón Halldór Eðvaldsson.
Sé litið til bikarsögu liðanna þá er ólíku saman að jafna því Keflvíkingar hafa alls 17 sinnum leikið til úrslita í Höllinni síðan árið 1975. Keflavík hefur unnið bikarinn 11 sinnum en í 6 skipti mátt sætta sig við silfrið. Síðustu tvö silfur komu í fyrra og leiktíðina 2007 eftir spennuleikinn mikla gegn Haukum.
Haukar hafa 7 sinnum leikið til bikarúrslita og fjórum sinnum orðið bikarmeistarar, síðast 2007 en árið 2008 fengu Haukar silfur eftir tapleik gegn Grindavík.
Leiktíðina 2007 voru Haukar með feiknasterkt lið og var það tímabil jafnframt það síðasta hjá Helenu Sverrisdóttur áður en hún hélt út til Bandaríkjanna í nám þar sem hún leikur nú með TCU háskólanum. Keflvíkingar misstu líka Maríu Ben Erlingsdóttur sem nú leikur með UTPA skólanum.
Staðan liðanna í deildinni nú og þá er nokkuð breytt því þegar liðin mættust í bikarnum voru þau á toppi deildarinnar. Keflvíkingar eru nú í 3. sæti en Haukar í 5. sæti og leika í B-riðli í uppskiptri deild. Þó eru enn nokkrir innan raða þessara liða sem tóku þátt í bikarleiknum eftirminnilega 2007.
Töluverðar væntingar eru gerðar til komandi bikarúrslitaleiks enda var enginn svikinn þegar þessi lið mættust síðast í Höllinni 2007. Deildarviðureignir liðanna hafa líka verið athyglisverðar þetta tímabilið. Keflvíkingar náðu í eins stigs sigur að Ásvöllum þegar liðin mættust fyrst á tímabilinu en svo þegar þau hittust aftur í Keflavík þann 20. janúar síðastliðinn höfðu Keflvíkingar afgerandi 20 stiga sigur 85-65. Haukar höfðu fyrir 20 stiga tapið gegn Keflavík nýlega bætt við sig dönskum landsliðsbakverði að nafni Kiki Jean Lund og var búist við að hún myndi skapa nokkurn usla en svo var ekki að sjá á Sunnubraut þar sem Haukar fengu skell.
Keflvíkingar hafa því yfirhöndina gegn Haukum þessa leiktíðina en svo er bara að sjá hvort liðið mæti klárt í Höllina nú síðar í febrúarmánuði.