spot_img
HomeFréttirVeikindi í herbúðum Íslands - Tap fyrir Belgíu í dag

Veikindi í herbúðum Íslands – Tap fyrir Belgíu í dag

 

Undir 16 ára lið drengja tapaði rétt í þessu, 55-64, fyrir Belgíu á Evrópumótinu í Búlgaríu. Liðið er því komið með einn sigur, en þrjá tapleiki á mótinu og situr í 4. sæti riðils síns.

 

Margir leikmanna liðsins hafa verið veikir síðastliðna daga. Að sögn þjálfara liðsins er ælupest að ganga og þar af leiðandi spiluðu einhverjir leikmenn veikir í dag, en aðrir s.s. Sigvaldi Eggertsson (ælupest) og Hafsteinn Guðnason (höfuðhögg gegn Búlgaríu) tóku engan þátt.

 

Í fyrri hálfleiknum var Belgía betri aðilinn. Eftir fyrsta leikhluta voru þeir með þriggja stiga forskot 12-15. Þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var sá munur kominn í 11 stig, 24-35. Seinni hálfleikinn byrjaði Ísland svo af krafti. Unnu þriðja leikhlutann 22-14 og voru því búnir að skera forskot Belgíu niður í 3 stig fyrir lokaleikhlutann. Í honum gekk hinsvegar ekki jafn vel hjá Íslandi og fór svo að lokum að þeir töpuðu leiknum með 9 stigum 55-64.

 

Atkvæðamestur fyrir Ísland í leiknum var Hilmar Henningsson, en hann skoraði 14 stig, tók 7 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.

 

Næsti leikur liðsins er á morgun gegn Tékklandi, en hann er sá síðasti í riðlakeppni mótsins. 

 

Tölfræði leiks

Hérna er meira um mótið

Fréttir
- Auglýsing -