spot_img
HomeFréttirVeigar Páll eftir fyrsta tímabilið með Chowan Hawks "Finn það alveg að...

Veigar Páll eftir fyrsta tímabilið með Chowan Hawks “Finn það alveg að ég er að bæta mig hérna”

Njarðvíkingurinn Veigar Páll Alexandersson gekk síðastliðið haust til liðs við Chowan Hawks í bandaríska háskólaboltanum eftir gott tímabil með grænum í Subway deild karla. Var hann tímabilið 2021-22 lykilleikmaður í liðinu sem vann deildarmeistaratitil og bikarmeistaratitil haustið áður, 2021. Þá á 20. aldursári skilaði hann 8 stigum, 2 fráköstum og stoðsendingu að meðaltali í leik þar sem hann var oftar en ekki í byrjunarliði Njarðvíkur.

Eftir bikarmeistaratitil Njarðvíkur 2021

Veigar Páll lék á sínum tíma upp alla yngri flokka Njarðvíkur og hóf að leika með meistaraflokki félagsins aðeins 16 ára gamall árið 2017. Þá hefur hann einnig verið hluti af öllum yngri landsliðum Íslands

Veigar í leik fyrir Ísland

Chowan Hawks leika í annarri deild bandaríska háskólaboltans og eru staddir í Murfreesboro í körfuboltafylkinu Norður Karólínu. Tímabil þeirra er nú búið og endaði skólinn með 14 sigra og 12 töp í heild á tímabilinu, en 12 sigra og 8 töp í deild.

Karfan hafði samband við Veigar Pál og spurða hann aðeins út í þetta fyrsta ár með Chowan, hvernig stemningin sé í Norður Karólínu og hvað hann hyggist gera í framhaldinu.

Hvernig er að vera kominn af stað í bandaríska háskólaboltanum?

„Það er bara virkilega gaman að koma hingað út og upplifa eitthvað allt öðruvísi en ég hef verið að gera heima.

Hvernig er stemmningin í Norður Karólínu?

„Virkilega góð mjög gott veðurfar sem er plús. Hérna úti er mikið talað um við séum fjölskylda, það var nýtt fyrir mér, sérstaklega fyrir og eftir leiki þá er alltaf sagt „Family” í berjunni, í staðinn fyrir nafnið á liðinu.“

Veigar og liðsfélagi hans Óli Gunnar Gestsson

Er körfuboltinn ólíkur því sem þú hafðir vanist hérna heima?

„Já, hann er það. Liðið mitt vill spila virkilega hraðan bolta og ná eins mörgum sóknum og við getum. Einnig það sem er ólíkt og heima er hvað maður þarf að vera góður í einn á einn bæði sóknarlega og varnarlega, heima er maður meira að hlaupa af skrínum og hafa yfirhöndina á varnarmanninum þannig, en hér úti þarf maður að hafa gott vopnabúr til þess að komast framhjá varnarmanninum og skora því það er ekki lögð mikil áhersla á að hlaupa i gegnum kerfi til að skora.“

Nú ferðu út eftir flott tímabil hjá Njarðvík, var ekkert erfitt að taka stökkið og sjénsinn á því að þú næðir að halda áfram að bæta þig þarna úti?

„Jú algjörlega. Ég hugsaði um þetta mikið og geri það enn, hvort væri betra að vera heima eða hér. En ég finn það alveg að ég er að bæta mig hérna úti þar sem þjálfarinn leyfir manni ekki að komast upp með það að „slaka á” inná æfingum. Maður þarf alltaf að vera mættur og einbeittur á æfingum.

“Svo er ég líka í fríu námi hérna svo ég tel þetta vera betri valmöguleiki.”

Fylgist væntanlega vel með Subway deildinni þarna úti, hvernig líst þér á hvernig tímabilið hefur þróast fyrir þína menn í grænu?

„Bara mjög vel, í þau fáu skipti sem ég hef getað horft á þá er ég alltaf jafn sáttur með hvernig þeir eru búnir að vera spila heilt yfir.

Hvernig hefur þér gengið á tímabilinu?

„Mér gekk ágætlega á tímabilinu, ég var að spila frá 7 mínútum upp í 20 mínútur. Það tók smá tíma að komast inn í leikinn sem við ætluðum að spila en það koma með tímanum og þá fannst mér ég geta gert mikið meira sóknarlega. Varnarlega var ég heilt yfir mjög solid.“

Verður þú áfram úti á næsta tímabili með Chowan?

„Já, ég mun koma hingað aftur í ágúst.

Hver eru markmið þín fyrir næsta tímabil?

„Ég á enn eftir að setjast niður og skrifa markmiðin mín fyrir næsta timabil, en það er alveg klárt mál að ég ætla að fá fleiri mínutur á næsta ári og fá stærra hlutverk sóknarlega.“

Fréttir
- Auglýsing -