spot_img
HomeFréttirVarnarsigur Stjörnunnar á Íslandsmeisturunum

Varnarsigur Stjörnunnar á Íslandsmeisturunum

Stjarnan hoppaði uppí fjórða sæti Dominos deildar kvenna með sigri á íslandsmeisturum Snæfels 60-52 í kvöld. Stjarnan spilaði frábæran varnarleik gegn áhugalausum leikmönnum Snæfels. 

 

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má sjá hér að neðan:

 

Þáttaskil.

Stjarnan mætti mun ákveðnari til leiks og greinilegt að liðið ætlaði að bæta upp fyrir slaka frammistöðu í síðasta heimaleik gegn Njarðvík. Heimakonur héldu forystunni nánast allan leikinn fyrir utan smá kafla í þriðja fjórðung. Þegar þrjár mínútur voru eftir setti Aaryn Ellenberg-Wiley þrjár þriggja stiga körfur í röð. Við það færðist stemmningin yfir til Snæfels og verið mjög auðvelt fyrir Stjörununa að brotna við það. Annað kom á daginn og þær tvíefldust við mótlætið, héldu rónni og unnu að lokum góðan átta stiga sigur 60-52 gegn Íslandsmeisturum Snæfels. 

 

Tölfræðin lýgur ekki.

Segja má að Stjarnan hafi unnið þennan leik á sterkum varnarleik og yfirburðum í frákastabaráttunni. Liðið var með 42 fráköst og þar af 9 sóknarfráköst. Stjarnan hitti betur, gaf fleiri stoðsendingar en töpuðu örlítið fleiri boltum. Tölfræðin og stigataflan eru því á sama máli að sigur Stjörnunnar hafi verið fyllilega verðskuldaður.

 

Hetjan.

Danielle Rodriquez og Ragna Margrét Brynjarsdóttir mynda mjög öflugt teymi í liði Stjörnunnar. Danielle var með 17 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar í leiknum og spilaði sterka vörn á Aaryn. Ragna Margrét sýndi yfiburði sína undir körfunni í þessum leik tók 14 fráköst og bætti við 16 stigum. Einnig er vert að nefna Viktoríu Steinþórsdóttur sem átti kraftmikla innkomu í leiknum, spilaði fantavörn en var óheppin að lenda snemma í villuvandræðum. Hjá Snæfell voru of margir lykilmenn að leika langt undir pari en Aaryn Ellenberg-Wiley var stigahæst með 26 stig, aftur á móti tapaði hún 6 boltum og braut tvívegis klaufalega á sér undir lok leiks. 

 

Kjarninn. 

Sigur Stjörnunnar var sannfærandi og sanngjarn. Leikmenn Snæfels virtust vera áhugalausir um að vinna leikinn í kvöld og voru aldrei líklegir til þess. Ferðalagið úr Stykkishólmi hefur verið erfiðara nú en venjulega þvi Snæfell virtist ekki hafa neitt sérstaklega gaman af því að leika þennan leik. Baráttan og leikgleðin sem hefur einkennt liðið var víðsfjarri í dag. Stjarnan sýndi loksins karakter að brotna ekki við mótlætið og unnu goðan sigur. Tap Snæfels þýðir að liðið er fjórum stigum á eftir Keflavík sem er í fyrsta sæti deildarinnar. Stjarnan aftur á móti er komið í úrslitakeppnissæti og ef liðið finnur stöðugleika er aldrei að vita nema að liðið stríði efstu liðunum þegar líður á. 

 

Tölfræði leiksins:

Mynd 

Fréttir
- Auglýsing -