spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaVarnarleikur Hauka tryggði þeim heimavöllinn

Varnarleikur Hauka tryggði þeim heimavöllinn

Í kvöld mættust í Ólafssal liðin í öðru og þriðja sæti Dominsdeildar kvenna. Tveimur stigum munaði á liðunum í töflunni en ljóst að Haukar tækju annað sætið með sigri á grundvelli betri stöðu í innbyrðis viðureignum. Byrjunarliðin voru Þóra Kristín, Eva Margrét, Sara Rún, Alyesha og Lovísa Björt fyrir Hauka en Katla Rún, Anna Ingunn, Emelía Ósk, Salbjörg Ragna og Daniela Wallen fyrir gestina úr Keflavík. Keflvíkingar byrjuðu betur, nýttu sér vel styrkleika Daníelu sem skoraði fyrstu þrettán stig liðsins. Bæði lið hittu illa í upphafi og boltapressa Keflvíkinga truflaði sóknarathafnir Hauka verulega. Tíðindalítið á vesturvígstöðvunum væri ágætis lýsing á leikhlutanum sem lauk 12-16 fyrir gestina.

Ráðaleysi og vantrú í sóknarleik Keflvíkinga

Í öðrum leikhluta léku Haukar góða vörn. Keflvíkingar skoruðu fjögur stig á fyrstu þremur mínútunum en Haukar eftir það virtist lok hafa verið sett á körfuna og Keflavík skoraði ekki fleiri stig í leikhlutanum, þrátt fyrir að Jón Halldór tæki tvö leikhlé til að herða hug þeirra.  Hefðu Haukar haldið aðeins fastar í boltann og nýtt fjölda góðra færa við körfuna hefði forskot þeirra í hálfleik orðið mun stærra en 29-20.

Frábær þriðji leikhluti Hauka

Haukastúlkur hafa átt ansi marga vonda þriðju leikhluta í vetur en í kvöld sýndu þær allar sínar bestu hliðar. Pressuðu Keflvíkinga um tíma með „trekvart“ svæðispressu þar sem leikmenn bökkuðu hratt þegar boltinn fór framhjá þeim. Þær tvöfölduðu á Danielu og voru fljótar út í skotmennina. Voru keflvízkar á stundum heppnar að sjá körfuna og gerðu stundum vel úr erfiðum færum. Þær Sara Rún og Alyesha nýttu sér stærðarmuninn vel og óðu í sóknarfráköstum. Endaði Sara með 7 slík og Alyesha með 4 (Haukar samtals með 20 sóknarfráköst). Staðan að loknum þremur var 53-35 og ætla mátti að sjá fjórði væri formsatriði eitt.

Aldrei hægt að slaka á gegn Keflvíkingum

Haukar héldu áfram hörðum varnarleik fyrstu mínútur lokaleikhlutans en mikil barátta þeira Önnu Láru og Önnu Ingunnar fór að skila sér Keflavíkurmegin og allt í einu var eins og einbeiting Hauka fjaraði út þegar tæplega sex mínútur eftir (staðan 57-40). Keflavíkurstúlkur efldust, Daníela skoraði loks eftir stigaþurrk í bæði öðrum og þriðja leikhluta og bakverðirnir hófu að setja niður regnbogaþrista. Ótti fór að hríslast um Haukastelpur sem fóru að vernda forystuna í stað þess að treysta á styrkleika sína að körfunni. Keflavíkurstúlkur náðu muninum tvívegis niður í fjögur stig en Haukar héldu út og unnu 67-63.

Líkamsstyrkur og vörn, ekki leikni og hittni

Leikinn í kvöld unnu Haukar þrátt fyrir að hafa verið verulega mislagðar hendur í sókninni, lengst af leiknum. Að sama skapi töpuðu Keflvíkingar með mun minni mun en þær áttu skili sé spilamennska liðsins í öðrum og þriðja leikhluta skoðuð nánar. Keflvíkingar gerðu vel að komast í þá stöðu að geta unnið hann, hefði heppnin fylgt þeim.  Haukar voru grimmari í vörninni, þær nýttu vel líkamsstyrk í teignum og þær hittu nægilega vel að utan til að halda Keflvíkingum frá því að pakka í teiginn.

Forsmekkurinn að góðu einvígi í úrslitakeppninni

Haukar þurfa aldeilis að klúðra gegn KR til að tapa heimavellinum aftur í hendur Keflvíkinga sem þurfa að fara í gegnum Hafnarfjörð til að komast í úrslitarimmu um Íslandsmeistaratitil. Leikurinn í kvöld var ágætis „general prufa“ fyrir bæði lið. Munu þjálfarar liðanna örugglega greina hvað það var sem sköpum skipti í kvöld og hvaða breytingar þarf að gera. Framundan er einvígi milli leikmanna og þjálfara sem verður þess virði að horfa á.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, viðtöl / Jóhannes Albert Kristbjörnsson

Fréttir
- Auglýsing -