spot_img
HomeFréttirVantar upp á einbeitinguna í þriðja leikhluta

Vantar upp á einbeitinguna í þriðja leikhluta

ÍR tapaði fyrir Haukum í kvöld eftir að hafa leitt leikinn allan fyrri hálfleikinn og var þetta fjórði ósigur liðsins í röð. Þeir sitja nú í 10. sæti deildarinnar með 10 stig, fjórum stigum meira en FSu sem vermir 11. sætið og sex stigum minna en Grindavík sem situr í 8. sæti og þar með í síðasta sætinu inn í úrslitakeppnina.

Aðspurður um gang leiksins í kvöld sagði Borce Ilievski að rétt eins og í leiknum á móti Stjörnunni þá var það slakur þriðji leikhluti sem varð ÍR-ingum að falli: "Þessi leikhluti er svolítið vandamál fyrir okkur. Við þurfum að halda betur einbeitingu í þriðja leikhluta". Leiknum lauk með sex stiga sigri Hauka eftir að þeir höfðu mest náð 19 stiga forystu undir lok þriðja leikhluta og kostaði það mikla orku hjá gestunum að saxa á forskot heimamanna: "Við leggjum allt í sölurnar undir lok leiksins og vorum nærri þessu líkt og tölurnar sýna, einungis sex stiga munur. En stundum er það ekki nóg. Við erum að eyða of mikilli orku í það“.

Mínúturnar dreifðust nokkuð vel á milli leikmanna í leiknum í kvöld og fengu ungir leikmenn tækifæri til að láta ljós sitt skína á vellinum. Borce var ánægður með frammistöðu leikmannanna sem komu inn af bekknum: “Ég vil að ungu leikmennirnir taki meiri þátt í leiknum, vegna þess að ef lítið er um skiptingar þá verða þeir leikmenn sem spila hvað mest þreyttir. Á sama tíma vil ég að ungu leikmennirnir öðlist reynslu fyrir næsta ár." "Ég var mjög ánægður með bekkinn, spilamennsku leikmanna og hvernig þeir nálguðust leikinn. Þannig að við verðum að taka með okkur jákvæðu hlutina úr svona leik".

Hvað varðar stöðu ÍR í deildinni, þá væru einn til tveir sigrar ákjósanlegir til tryggja áframhaldandi veru liðsins í henni að mati Borce: "Eftir nokkra tapleiki, þá held ég að við verðum að vinna a.m.k. einn til tvo leiki til að vera öruggir því allir hafa enn möguleika, FSu og höttur. En við munum berjast í hverjum leik, ég get lofað því.“ Fræðilega séð segir hann að ÍR eigi enn möguleika á að komast í úrslitakeppnina þrátt fyrir tapleikina undanfarið. Nokkuð langt er í næsta leik þegar Breiðhyltingar taka á móti Njarðvíkingum í Seljaskóla þann 18. febrúar og munu ÍR-ingar nota tímann vel til að undirbúa sig fyrir þann leik.  

Fréttir
- Auglýsing -