Vanmat er hugtak sem gjarnan er notað í íþróttum. Um vanmat hefur verið rætt og ritað af ýmsum sérfræðingum. Það er þó ljóst að í þeirri umfjöllun hafa menn verið á miklum villigötum. Það er ekkert til sem heitir vanmat í íþróttum. Lið sem talin eru „vanmetin“ eru einfaldlega „réttmetin“. Þau eru léleg. Lið sem tapar leik gegn liði sem er „vanmetið“ gerir það ekki vegna vanmats. Það gerir það líklega frekar vegna eigin ofmats…
En talandi um vanmat og ofmat. Ég lék um þriggja ára skeið körfubolta með Breiðablik í 1. deild. Breiðablik er félag sem líklega aldrei er ofmetið. Ekki spilaði ég með mörgum erlendum leikmönnum þau þrjú ár sem ég lék þar enda líta forráðamenn félagsins alla jafna á úrvalsdeild sömu augum og almenningur lítur svæði löðrandi í kjarnorkuúrgangi. Það er ekki vilji til þess að vera þar…
Síðasta tímabil mitt hjá Breiðablik lék þar leikmaður að nafni Tony Cornett. Körfuboltahæfileikar voru kannski ekki hans sterkasta hlið en hæfileika hafði hann engu að síður, hæfileika sem áttu þó ekki eftir að koma í ljós fyrr en síðar. Það var á á dimmu vetrarkvöldi árið 2007 að liðið hafði nýlokið sér af í Þorlákshöfn og var á leið sinni um þrengslin (Fjandinn, er það bara ég eða er þetta mögulega byrjunin á einhverri þræleroótískri bók í anda Fifty Shades of Grey?). Á undan okkur í bíl var ónafngreindur nýliði auk okkar manns Tony Cornett og unnustu hans sem stödd var hér á landi í vaktavinnu á skeiðvellinum. Þegar við vorum hálfnaðir inn í þrengslin fer að verða ansi sleypt (Nei, andskotinn…).
Fer það svo að bíllinn með Tony Cornett endar út í kanti og veltur á hægri hliðina. Við rjúkum út og sjáum að bílstjórinn og unnusta Tony eru heil á húfi. Öðru máli gegndi með okkar mann. Hann emjaði, grét og öskraði og urðum við að draga hann út úr bílnum. Svo mikil var angistin að enn ómar í huga mér setningin sem hann veinaði í sífellu; „I can´t feel my legs, I can´t feel my legs…“. Við urðum auðvitað skelfingu lostnir og hringdum á 112 og lýstum ástandinu. Meðan beðið var sjúkrabíls tókum við að okkur að hugga Tony á meðan Trausti Jóhannsson, að mig minnir, sá um að hugga unnustu hans. Með mér í bíl ásamt Trausta var Rúnar Pálmasson sem hafði hafið nám í sjúkraþjálfun stuttu áður og mat hann Tony auðvitað lamaðan. Þegar sjúkrabíllinn mætir á svæðið setja sjúkraflutningamennirnir okkar mann í mikla spelku eftir að búið var að klippa af honum úlpuna og peysuna og lifta honum loks varlega upp á sjúkrabörur enda mátti auðvitað ekki hreyfa lamaða manninn mikið.
Nú, ég og Rúnar ákváðum að skipta með okkur vöktum á sjúkrahúsinu enda erfitt fyrir erlendan mann í framandi landi að dvelja þar einn. Þegar eitthvað var liðið á vaktina hans Rúnars um kvöldið fer Tony að kveinka sér þar sem honum var farið að verða mál að pissa. Hjúkrunarkonan mætir á svæðið með þvaglegg og hyggst tengja hinn lamaða sjúkling þegar kraftaverkið loks gerist! Okkar maður taldi algjörlega óþarft að tengja sig við þvaglegginn. Okkar maður reysti sig þess í stað upp og sagði; „Mam, I think it´s ok – I can walk“, stígur fram úr rúminu og trítlar á klósettið. Hver þarf biblíusögur þegar þvagleggur er annars vegar? Kappinn mætti á æfingu tveimur dögum síðar, var rekinn eftir tvær vikur og útskrifaðist svo með hæstu einkunn af dramabraut frá the Juilliard án þess að svo mikið sem mæta í einn tíma! Rúnar, sá er mat Tony lamaðann, er í dag farsæll sjúkraþjálfari en minna er vitað um líðan þeirra er fara til hans í meðferð…
Að öðru leyti er þetta staðan:
– Fimm leikir búnir í Domino´s deild karla og það sem hefur komið mér mest á óvart er aðallega tvennt. Annarssvegar hve margir örvhentir leikmenn eru í deildinni og hins vegar að einn þeirra virðist geta skotið. Hingað til hef ég gengið að því vísu að Christ Mullin sé eini örvhenti leikmaðurinn í heiminum sem geti hitt úr þriggjastiga skotum. Það vakti því undrun mína þegar ég varð vitni af skotsýningum Davíðs konungs Þorlákshafnar. Tölfræðin segir okkur að það séu 73,7% líkur á því að að hann hitti ef hann tekur þriggjastiga skot eða sömu líkur og að Sveinbjörn Claessen, vinur minn og massaðasti hæstaréttarlögmaður landsins, sé að hnykla vöðvana í þessum rituðu orðum…
– Sex leikir eru búnir í Domino´s deild kvenna. Haukar á toppnum og kannski ekki furða þegar í liðinu er leikmaður sem skilar nánast þrennu að meðaltali í leik. 21,5 stig, 14,3 fráköst og 8 stoðstendingar að meðaltali í leik! Það væru nú einhver drottningarviðtölin búin að birtast í fjölmiðlum ef Helena Sverrisdóttir spilaði með hangandi lim utan á sér miðri…
– Stjórnin hjá Tinda$tól er ekki í þessu bara til að vera með. Þeir nenna ekki að bíða eftir að menn læri þríhyrning, excell raðskiptingar eða aðrar stærfræðiformúlur úr ranni Pýþógóras. Menn vilja bara sigur. Ef þeir hefðu viljað láta leik liðsins ráðast af tölfræði eða excell skiptingum hefðu þeir bara ráðið Óskar Ófeig…
– Njarðvík og KR eiga í útistöðum út af Birni Kristjánssyni. Leikmaðurinn er með samning við KR en virðist vilja skipta yfir í Njarðvík. Þar eru mun fleiri mínútur í boði enda ekki landsliðsmenn í hverri stöðu. Þetta er auðvitað skiljanlegt en það er hreinlega bara orðið umhverfismál að Björn og Oddur bróðir hans ákveði sig hvar þeir vilji spila enda heilu regnskógarnir farnir í súginn í félagaskiptaeyðublöð fyrir þá bræður…
Sævar Sævarsson