16:00
{mosimage}
(Valur Ingimundarson)
Þjálfari karlaliðs Njarðvíkur í Iceland Express deildinni, Valur Ingimundarson, hefur ærna ástæðu til þess að kætast þessa dagana en fjöldi sterkra Njarðvíkinga hefur snúið aftur í Ljónagryfjuna. Að því sögðu er óhætt að kasta því fram að ungu piltarnir sem fengu að spreyta sig töluvert í Ljónagryfjunni á síðustu leiktíði eigi eitthvað erfiðara um vik að komast í Njarðvíkurliðið á næstu leiktíð. Karfan.is náði á Val í stutt spjall en sagði að það kæmu engir titlar í hús fyrr en menn væru búnir að vinna fyrir þeim. Engu að síður eru Njarðvíkingar komnir með öflugan hóp og líklegir til afreka á komandi leiktíð.
Njarðvíkingar hafa verið duglegir að endurheimta sína uppöldu leikmenn. Ertu núna kominn með meistaralið í hendurnar?
Mjög ánægjulegt fyrir Njarðvíkinga að sjá þessa leikmenn koma til baka, ég tel okkur nú vera með mjög vel mannað lið af Íslendingum. Titlar koma þegar menn hafa unnið fyrir þeim eins og alltaf.
Stefnir þú á það að vera með Bandaríkjamann í liðinu frá upphafi næstu leiktíðar?
Helst vildi ég spila án Kana og þannig byrjum við nokkuð örugglega en það getur verið erfitt að vera án þeirra þegar og ef menn fara að hlaða þeim inn.
Hvað með Loga Gunnarsson, verður hann áfram hjá félaginu eða er hann að reyna að komast út í atvinnumennsku?
Logi mun reyna að fara aftur í atvinnumennsku,en ég legg mikla áherslu á að halda Loga ef hann fer ekki enda frábær leikmaður og hann fær meiri hjálp á næsta tímabili og vonandi búinn að ná sér alveg af meiðslunum.
Eruð þið komnir af stað með æfingar?
Við munum skokka eitthvað fyrir Landsmót.
Hver er þín tilfinning fyrir næstu leiktíð?
Vona að það verði meiri metnaður fyrir uppbyggingu á íslenskum leikmönnum og menn verði óhræddir við að nota þá, nú er tíminn!