spot_img
HomeFréttirValur Orri eftir fjögur ár með Florida Tech Panthers "Langaði rosalega til...

Valur Orri eftir fjögur ár með Florida Tech Panthers “Langaði rosalega til að labba sviðið og fá gráðuna”

Fyrir tæpum fjórum árum ákvað bakvörðurinn Valur Orri Valson að halda vestur um haf og ganga til liðs við Florida Tech Panthers. Panthers leika í Sunshine State hluta annarrar deildar bandaríska háskólaboltans.

Valur Orri lék með hinum ýmsu liðum áður en hann hélt til Bandaríkjanna fyrir fjórum árum. Upphaflega var það Skallagrímur, síðan til Njarðvíkur, þaðan til Fsu áður en hann kom svo til Keflavíkur árið 2012. Með þeim lék hann svo út tímabilið 2015-16 og skilaði 13 stigum, 5 fráköstum og 6 stoðsendingum að meðaltali í leik í Dominos deildinni. Til Keflavíkur kom hann svo aftur undir lok síðasta tímabils, en náði aðeins þremur leikjum áður en öllu var aflýst.

Karfan hafði samband við Val og spurði hann út í háskólaboltann og lífið á Flórída.

Hvernig fannst þér þetta fjórða ár ganga með Florida Tech Panthers?

“Það gekk eiginlega bara frekar illa. Áttum rosalega erfitt með að spila saman sem lið og körfuboltinn sem við spiluðum var pínlegur á köflum. Það gat verið ansi erfitt en svo komu stundum flottir leikir inn á milli”

Er mikill munur á lífinu í Melbourne og hér heima?

“Jú það auðvitað munur á þessum tveimur stöðum. Veðrið auðvitað alltaf fyrsta sem ég nefni og svo aðeins minna stress á fólki þar”

Er mikill munur á körfuboltanum sem þú þurftir að aðlagast þarna og hér heima?

“Já, hraðari og meiri íþróttamenn í öllum stöðum. Villtari körfubolti að sama skapi og ekki jafn mikill liðsbolti eins og hér heima”

Er mikill munu á tímabilinu hér heima og úti í háskólaboltanum?

“Það er aðallega bara leikjaplanið, spiluðum 2-3 viku á 3 mánaða tímabili. Það var mjög fínt, skemmtilegra að spila fleiri leiki í viku”

Hvað er svona það helsta sem þú tekur frá því að hafa verið fjögur ár úti?

“Gráðan er það stærsta sem ég tek með mér að sjálfsögðu. Körfuboltalega séð væri það líklega stoðsendingametið sem ég sló í skólanum. Annars er það líka bara reynslan og allt sem maður upplifði á þessum fjórum árum, mikið af vinum og horfir aðeins á hlutina öðruvísi. Snýst ekki allt um Ísland eins og maður hélt áður en maður fór út”

Nú endaði tímabilið nokkuð snemma hjá flestum í körfuboltaheiminum vegna Covid-19 faraldursins, voru það mikil vonbrigði? Náðuð þið að klára skólann?

“Það voru mikil vonbrigði því mig langaði rosalega til að labba sviðið og fá gráðuna, en fékk nafnið mitt lesið í beinni í staðinn. Náðum að klára körfubolta tímabilið úti en því miður stoppaði það hér fyrir skemmtilegustu vikurnar sem eftir voru”

Nú varst þú að klára þitt nám þitt þarna úti, ertu eitthvað búin að ákveða hvað þú gerir í framhaldinu og hvar þú ætlar að spila?

“Ég hef ekki ákveðið hvað sé næst á dagskrá. Var að heppinn að fá smá vinnu núna og svo vona ég bara ástandið fari að skána svo það verði auðveldara að vita hvað næsta skref sé”

Fréttir
- Auglýsing -