Valskonur lögðu topplið Njarðvíkur 57-66 í Ljónagryfjunni í kvöld. Lokatölurnar gefa ögn skakka mynd af leiknum því Valur var með þetta í teskeið frá upphafi til enda.
Ameryst Alston var með 29 stig, 6 fráköst, 6 stoðsendingar og 5 stolna bolta hjá gestunum og Ásta Júlía Grímsdóttir bætti við 10 stigum og 13 fráköstum. Hjá Njarðvík var Aliyah Collier með 17 stig og 17 fráköst og Lavina De Silva með 15 stig og 6 fráköst.
Gestirnir frá Hlíðarenda mættu vel stilltir til leiks, komust í 4-10, 7-17 og leiddu svo 7-21 að loknum fyrsta leikhluta. Njarðvíkingar að sama skapi létu eins og svæðisvörn væri algerlega nýtt fyrirbæri og komust hvorki lönd né strönd gegn Valsvörninni. Þessu til vitnis voru samtals tvö stig sem lágu í valnum hjá Collier, De Silva og Diane í liði heimakvenna eftir fyrsta hluta.
Í öðrum leikhluta tók litlu skárra við fyrir toppliðið, Valur komst í 12-31 og svæðisvörn gestanna var með Njarðvík á 2-13 í þristum fyrstu 20 mínútur leiksins. Undir lok fyrri hálfleiks kom smá lífsmark í Njarðvíkinga en Valskonur leiddu þó 25-44 í hálfleik. Magnaður fyrri hálfleikur hjá Val þar sem Amerst og Ásta Júlía voru virkilega flottar.
Síðari hálfleikur og loks fór eitthvað að ganga hjá Njarðvík. Vörnin allt önnur og betri en sóknarleikurinn ennþá stirður. Njarðvík vann þriðja 14-8 og því leiddu Valskonur 39-52 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Í byrjun fjórða kom Njarðvík muninum niður í 43-52 en Valskonur gerðu vel að halda þeim fjarri. Á lokasprettinum þegar heimakonur þurftu mest á því að halda að skotin dyttu þá var þeim bænum ekki svarað og Valur arkaði heim að Hlíðarenda með tvö dýr stig eftir 57-66 sigur.
Deildarviðureignir Vals og Njarðvíkur eru að verða athyglisverðar, þrír leikir til þessa og allir unnist á útivelli. Hvað verður uppi á teningnum þegar liðin mætast í fjórðu umferðinni að Hlíðarenda.