spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaValur deildarmeistari Dominos deildar kvenna

Valur deildarmeistari Dominos deildar kvenna

Valur lagði Snæfell í kvöld í fyrsta leik 20. umferðar Dominos deildar kvenna, 86-62. Með sigrinum tryggði Valur sér toppsæti deildarinnar þetta tímabilið og fengu deildarmeistaratitilinn afhentan eftir leik í kvöld. Snæfell voru sömuleiðis öruggar með sitt 7. sæti, en þær höfðu fyrir leik kvöldsins unnið tvo leiki í röð sem tryggt hafði sæti þeirra í deildinni á næsta tímabili.

Gangur leiks

Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað. Jafnræði var á með liðunum vel framan af fyrsta leikhlutanum, en undir lok hans ná heimakonur að byggja sér upp þægilega 11 stiga forystu, 24-13. Undir lok fyrri hálfleiksins má svo eiginlega segja að heimakonur hafi farið langleiðina með að gera út um leikinn. Eru 21 stigi yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, þrátt fyrir að hafa verið að rúlla á öllum leikmönnum liðsins, 48-27.

Það var svo í upphafi seinni hálfleiksins sem Valur veitti Snæfell náðarhöggið. Snæfell nær ekki að koma til baka í þeim þriðja þrátt fyrir hetjulega baráttu, tapa þriðja með aðeins 3 stigum, 20-17 og eru 24 stigum undir fyrir lokaleikhlutann, 68-44. Hálfgert formsatriði, að er virtist, fyrir heimakonur að sigla sigrinum í höfn, sem þær og gera, örugglega, 86-62

Tölfræðin lýgur ekki

Líkt og svo oft áður í vetur náðu Valskonur að eigna sér frákastabaráttu leiksins. Tóku 53 fráköst á móti aðeins 34 Snæfellskvenna.

Atkvæðamestar

Tinna Guðrún Alexandersdóttir var best í liði Snæfells í dag, skilaði 22 stigum og 4 fráköstum. Fyrir deildarmeistarana var Guðbjörg Sverrisdóttir atkvæðamest með 16 stig, 6 fráköst og 3 stoðsendingar.

Hvað svo?

Bæði lið leika næst komandi laugardag 8. maí í lokaumferð deildarinnar. Þá fær Snæfell Breiðablik í heimsókn í Stykkishólm á meðan að Valur heimsækir Keflavík í Blue Höllina.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Eygló Anna)

Fréttir
- Auglýsing -