spot_img
HomeFréttirValur burstaði Grindavík b: Langbesti leikurinn okkar hingað til

Valur burstaði Grindavík b: Langbesti leikurinn okkar hingað til

 
Valur vann um helgina Grindavík b 80-38 í 1. deild kvenna í körfuknattleik að Hlíðarenda. Þjálfari Valsstelpna hrósaði sínu liði fyrir besta leik þess í vetur í leikslok. Það er sennilega sjaldan sem Valsstelpur hafa verið jafn hittnar í einum leik og gegn Grindavík. Nánast hvert einasta skot, saman hvaða var, fór ofaní. Strax í fyrsta fjórðungi settu þær niður þrjár þriggja stiga körfur á stuttum kafla, enda voru þær yfir að honum loknum, 21-9. 
Þær héldu áfram uppteknum hætti á móti Grindavíkurliðinu sem reyndi að gera það besta úr stöðunni með að brosa, hlægja og skemmta sér. Í leikhléi var staðan 37-17 og 61-27 eftir þriðja fjórðung.
 
Þegar um hálf mínúta var eftir af leiknum var helmingsmunur, 76-38. Í stað þess að Grindavíkurliðið næði að halda því hlutfalli tókst Valsstelpum að skora seinustu fjögur stig leiksins.
 
„Ég held að við getum sagt að þetta sé langbesti leikur liðsins til þessa,“ sagði þjálfarinn Yngvi Gunnlaugsson í samtali við Körfuna að leik loknum. „Þetta var í fyrsta skipti sem við náum að stilla upp nánast fullskipuðu liði fyrir utan að það vantaði Lovísu.
 
Ég var ánægður með vinnsluna, vörnina og stemmninguna. Við hittum líka vel, níu af þrettán þriggja stiga skotum okkar rötuðu ofan í.“
 
Hann gaf sér þó tíma til að þakka Grindavíkurliðinu fyrir leikinn.
 
„Lið sem sendir B lið í keppni á heiður skilinn. Það væru bara sex lið í deildinni ef Haukar og Grindavík gerðu það ekki. Það var gaman að sjá kunnugleg andlit í Grindavíkurliðinu í dag.“
 
 
Myndir og umfjöllun: Gunnar Gunnarsson

Fréttir
- Auglýsing -