22:31
{mosimage}
(Mynd úr fyrsta leik liðana)
Valsmenn spila til úrslita við Fjölni um laust sæti í Iceland Express deildinni að ári eftir öruggan sigur á KFÍ fyrr í kvöld. Sigurinn var í raun aldrei í hættu og eftir miðjan fyrsta leikhluta fór forskot heimamann aldrei undir 10 stig. Þegar mestu munaði á liðunum höfðu heimamenn 26 stiga forskot og því ljóst að yfirburðirnir voru töluverðir. Valsmenn spiluðu á köflum virkilega sterkan varnarleik en virtust sleppa takinu í fjórða leikhluta. Stigahæstur Valsmanna var Rob Hodgeson með 21 stig en næstir voru Gylfi Geirsson með 15 stig og 10 fráköst og Þorgrímur Björnsson með 12 stig og 8 fráköst. Hjá KFí var Craig Shoen stigahæstur að vanda með 27 stig en hann vaknaði ekki til lífsins fyrr en undir lok þriðja leikhluta. Næstir hjá KFÍ voru Pance Illevski með 15 stig og Daniel Kavlov 14 stig og 7 fráköst.
Leikmenn KFI mættu mjög öruggir til leiks og náðu strax forustu í leiknum, þegar fjórar mínútur voru liðnar af leiknum höfðu þeir þriggja stiga forskot, 6-9. Valsmenn voru í vandræðum með að stilla upp í skilvirka sókn og skoruðu flest sín stig úr hraðaupphlaupum. Pance Illevski skoraði 10 af fyrstu 12 stigum KFÍ og var í raun ótrúlegt hvað hann fékk mikinn tíma og pláss í sókninni. Valsmenn pressuðu gestina alveg upp að endalínu og græddu oft á því auðveldar körfur. Þegar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum höfðu Valsmenn náð forskotinu, 15-12. Um tveimur mínútum síðar tók KFÍ leikhlé en þá hafði Valur náð 5 stiga forskoti, 19-14. Þegar flautað var til loka fyrsta leikhluta var forskot Valsmanna orðið 9 stig, 26-17. Þorgrímur Björnsson var að spila virkilega vel eins og í fyrri leikjum þessarar rimmu, stig valsmanna dreifðust mjög vel öfugt við lið gestana. Þar var hins vegar Pance Illevski sá eini sem virtist með lífi í sóknarleiknum, með 13 stig í fyrsta leikhluta.
Bæði lið voru í vandræðum sóknarlega í upphafi annars leikhluta en Valsmenn juku þó forskotið smátt og smátt. Eftir þrjár mínútur var forskotið komið upp í 12 stig, 31-19. Valsmenn gerðu vel að loka á besta mann KFÍ, Craig Shoen en hann hafði aðeins skorað 2 stig þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir af öðrum leikhluta. Valsmenn héldu því áfram að bæta við forskotið og höfðu náð 16 stiga forskoti, 43-27,stuttu eftir að KFÍ tók leikhlé. Valsmenn héldu forskotinu það sem eftir lifði leikhlutans og þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks var staðan 47-30.
Stigahæstur valsmanna í hálfleik var Rob Hodgeson með 12 stig en næstir voru Ragnar Gylfason og Þorgrímur Björnsson með 8 stig hvor. Hjá KFÍ var Pance Illevski með 13 stig en næstir voru Daniel Kavlov með 6 stig og Craig Shoen með 5 stig.
Valsmenn spiluðu gríðarlega sterkan varnarleik í upphafi þriðja leikhluta og þegar þrjár mínútur voru liðnar var forskotið komið upp í 22 stig, 56-34. Hægt og rólega sigu heimamenn lengra frammúr og þegar rúmlega þrjár mínútur lifðu af leikhlutanum var forskotið komið upp í 26 stig, 69-42. Varnarleikur Vals var að skila þessu forskoti og ljóst að það reyndist erfitt fyrir KFÍ að finna staðgengil fyrir Craig Shoen í sóknarleiknum, en hann hafði aðeins skorað 11 stig eftir rumlega 25 mínútur af leik. KFÍ náðu hins vegar mjög góðum kafla undir lok leikhlutans og þegar rum mínúta var eftr tóku Valsmenn leikhé en þá höfðu gestirnir minnkað muninn niður um 5 stig, 69-47. Craig Shoen kom þar mjög sterkur inn og skoraði glæsilega 3 sitga körfu þegar lokaflauta þriðja leikhluta gall, 73-53.
Valsmenn byrjuðu fjórða leikhluta af sama krafti og í upphafi annars leikhluta og þegar rúm mínúta var liðin af leikhlutanum höfðu þeir skorað 9 stig gegn 5 stigum KFÍ. Valsmenn stálu þá boltanum tvisvar í röð upp við endalínu KFÍ og fengu fyrir vikið auðvelda körfu. KFí ætlaði þó ekki að gefa leikinn þó það væri komið í hart. Þjálfari KFÍ Borce Ilievski setti nokkra minni spámenn inná og virtist það kveikja í liði gestana sem voru búnir að minnka muninn niður í 17 stig rétt áður en Valur tók leikhlé þegar leikhlutinn var um það bil hálfnaður. KFÍ minnkuðu muninn smám saman og þegar þrjár mínútur voru eftir var munurinn kominn niður í aðeins 14 stig, 94-80. Leikmenn Vals voru farnir að spila eins og sigurinn væri í höfn en gestirnir voru fljótir að hefna fyrir það. Valsmenn héldu þó út og höfðu á endanum 18 stiga sigur, 102-84.
Umfjöllun : Gísli Ólafsson
Mynd: Torfi Magnússon