spot_img
HomeFréttirValsmenn bæta við sig erlendum leikmönnum

Valsmenn bæta við sig erlendum leikmönnum

 
Bæði karla- og kvennalið Vals hafa bætt við sig erlendum leikmönnum fyrir komandi átök í Iceland Express deildunum í vetur. Bæði liðin unnu sér inn sæti í Iceland Express deildinni á þessu ári og því spennandi tímabil framundan á Híðarenda.
Kvennalið Vals bætti við sig bandarískum leikmanni að nafni Melisa Lechlitner sem er 23 ára leikstjórnandi. Hún spilaði með Notre Dame í Big East í NCAA háskóladeildinni í Bandaríkjunum áður en hún fór í atvinnumennsku í Þýskalandi síðasta vetur. Melisa verður Valskonum mikill liðsstyrkur en hún er mjög sterk á bolta og mun leiða sóknarleik Vals í vetur. Hún skoraði 8,3 stig, gaf 3,2 stoðsendingar með 38% skotnýtingu, 42% þriggja stiga nýtingu og 85% vítanýtingu á síðasti ári sínu fyrir Notre Dame háskólann. Melisa mun einnig þjálfa minnibolta kvenna ásamt því að vera aðstoðarþjálfari í stúlkna- og unlingaflokki kvenna.
 
Karlalið Vals hefur heldur betur bætt við sig en 4 nýjir leikmenn hafa nú bæst í hópinn fyrir fyrstu leiktíð Vals í Iceland Express deild karla í 7 ár eða síðan í mars 2004. Valsmenn hafa samið við 3 bandaríska leikmenn og þar af einn þeirra með íslenskt vegabréf. Það eru þeir Darnell Hugee, Austin Magnus Bracey og C.J. Collins. Einnig var samið við Igor Tratnik sem kemur frá Slóveníu en Igor þekkja stuðningsmenn KFÍ líklega manna best á Íslandi en hann spilaði með þeim hluta úr tímabili ‘09-‘10.
 
Igor hefur æft með Val síðan í september og hefur einnig þjálfað 11. flokk drengja. Hann spilaði á Spáni á síðasta tímabili og hefur því mikla reynslu að miðla til ungra Valsmanna sem munu spila sína fyrstu leiki í efstu deild á Íslandi í vetur.
 
Austin Magnus Bracey er 21 árs bakvörður með íslenkst ríkisfang. Austin á íslenska móðir en faðir hans er Val Bracey sem spilaði með Fram í kringum 1980. Austin mun einnig sjá um að þjálfa 8. flokk drengja og drengjaflokk í vetur.
 
Darnell Hugee er tveggja metra framherji frá Bandaríkjunum sem mun vafalaust setja mark sitt á Iceland Express deildina í vetur. Darnell var valinn varnarmaður ársins ásamt þvi að vera í úrvalsliði SWAC deildarinnar árið 2009 og 2010 þegar hann spilaði með Prarie View A&M. SWAC er 1. deildar háskóladeild í Bandaríkjunum og því mikið afrek af hans hálfu. Darnell skoraði 15 stig, hirti 6 fráköst, varði 1,9 skot með 55% skotnýtingu á síðasti ári sínu. Darnell spilaði í Ísrael á seinustu leiktíð þar sem hann skilaði álíka tölum. Darnell fór einnig í Pre-Draft work out hjá San Antonio Spurs á síðasta ári.
 
C.J. Collins er 23 ára leikstjórnandi frá Bandaríkjunum. Hann spilaði með McNeese State háskólanum sem urðu meistarar í Southland í 1. deildinni í háskólaboltanum. C.J. mun leiða sóknarleik Valsmanna og þykir einstaklega lunkinn við að leika samherja sína uppi. C.J. skoraði tæp 10 stig og gaf 3,7 stoðsendingar að meðaltali í leik með NcNeese þegar þeir urðu meistarar og því óhætt að segja að Valur hafi fengið sigurvegara til liðs við sig.
 
Mynd/ Darnell Hugee
 
Gísli Ólafsson
Fréttir
- Auglýsing -