spot_img
HomeFréttirValskonur sterkari á endasprettinum

Valskonur sterkari á endasprettinum

Erkifjendurnir KR og Valur mættust í fyrstu umferð Domino´s deildar kvenna í kvöld. Valskonur sluppu með sigur út úr DHL-Höllinni en lokatölur voru 67-71 Val í vil. Heimakonur í KR byrjuðu betur en Valskonur áttu lokaorðið.
 
 
Eftir fyrsta leikhluta leiddu KR-ingar 22-11 en þá fóru Hlíðarendakonur að pressa gestgjafa sína í öðrum leikhluta og það gaf vel. Svo vel að þegar upp var staðið tapaði KR 21 bolta í leiknum. KR var þó áfram yfir í hálfleik þrátt fyrir að hafa tapað örðum leikhluta 14-22.
 
Joanna Harden sýndi að hún er ill viðureignar og setti niður 25 stig fyrir Val í kvöld. Nokkuð gott finnst henni að klappa boltanum og á köflum hafði það tilfinnanlegar afleiðingar fyrir sóknarleik Valskvenna enda afrekaði þessi leikstjórnandi aðeins eina stoðsendingu í kvöld.
 
Leikar stóðu jafnir, 54-54 eftir þrjá leikhluta en í stöðunni 63-63 í fjórða seig Valur framúr og kláraði síðustu fjórar mínútur leiksins 4-8.
 
KR konur sýndu líflegar rispur í fyrsta leikhluta en fyrir mót var þeim spáð í 6. sæti deildarinnar en Valskonum í það fjórða. Brittany Wilson leiddi KR með 17 stig, 11 fráköst og 8 stoðsendingar, Bergþóra Holton Tómasdóttir bætti við 16 stigum, 6 fráköstum og 5 stoðsendingum og þá var Helga Einarsdóttir með 12 stig og 14 fráköst. Hjá Val var Joanna Harden með 25 stig og 9 fráköst og Ragnheiður Benónísdóttir landaði tröllatvennu með 16 stig og 16 fráköst.
 
  
Fréttir
- Auglýsing -