spot_img
HomeFréttirValskonur héldu ótrauðar áfram eftir jólafríið

Valskonur héldu ótrauðar áfram eftir jólafríið

Seinni hluti tímabilsins í úrvalsdeild kvenna byrjaði í dag á sjálfum þrettánda í jólum, 6. janúar. Fyrir áramót höfðu Valsarar slitið samningi sínum við Alexöndru Petersen og ákveðið í staðinn að fá Aaliyuh Whiteside í sínar raðir í staðinn. Valur voru efstar í deildinni fyrir leikinn á meðan að Blikar voru í fimmta sæti og bæði lið höfðu unnið öll önnur lið í deildinni. Heimastúlkur sýndu af hverju þær væru á toppnum í kvöld, en þær gengu frá Blikum í fyrri hálfleik og kláruðu leikinn 85-52.
 

Leikurinn byrjaði mjög illa fyrir þær grænklæddu, en Valskonur komu stöðunni upp í 17-2 á fyrstu 6 mínútum leiksins og það skánaði ekki mikið þegar á leið. Ágæt vörn Valsara og slæm sókn Blika sáu til þess að staðan blés út í 49-20 þegar liðin héldu inn í búningsklefana í hálfleik.

Breiðablik náði sér aðeins betur á strik í seinni hálfleik með betri hreyfingu í sókninni og með því að takmarka Valskonur lítillega með bættri vörn. Blikastelpur skoruðu næstum því jafn mikið í þriðja leikhluta og í öllum fyrri hálfleiknum (20 stig í fyrri hálfleik, 18 í þriðja) en þær töpuðu leikhlutanum samt með einu stigi. Lokafjórðungurinn var dálítið formsatriði, en hvorugt lið skoraði mikið á seinustu 10 mínútunum og bekkur beggja liða fékk að spreyta sig undir lokin. Staðan varð að lokum 85-52, Völsurum í vil.
 

Leikmenn úti beggja megin

Það má svo sem halda því til haga að Breiðablik vantaði byrjunarliðsmann sinn og landsliðsefni, Isabellu Ósk Sigurðardóttur, sem var veik heima, ásamt því að Telma Lind Ásgeirsdóttir var samkvæmt heimildum að spila fárveik. Það er þó ekki endilega afsökun þar sem að Valsarar söknuðu líka byrjunarliðsmanns síns, Dagbjartar Daggar Karlsdóttur, sem sat á bekknum og þær voru að spila á nýjum erlendum leikmanni sem er nýkomin til landsins, Aaliyah Whiteside.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Blikastelpurnar voru ekki að spila saman og hittu illa úr öllum skotum sínum. Þær gáfu einungis 11 stoðsendingar í öllum leiknum gegn 29 hjá Val og þær hittu aðeins úr 25% skota sinna á meðan að Valsstúlkur hittu 47% og klikkuðu ekki á vítaskoti (9/9). Þar fyrir utan tóku Valur 19 fleiri fráköst en Breiðablik (56 fráköst gegn 37) og höfðu á heildina 87 fleiri framlagsstig en Blikar (131 framlagsstig gegn 44).
 

Kjarninn

Þær í Breiðablik virðast ekki hafa komið réttar undan jólafríinu og sýndu að þær verða allar að vera heilar og samstilltar til að eiga góðan leik. Hildur Sig sagði í viðtalinu hafa vonast eftir að aðrar stigu upp í fjarveru leikmanna en svo virðist ekki hafa gerst nema að óverulegu leyti. Blikastelpur verða að hrista þennan leik af sér og skoða sig áður en þær mæta Stjörnunni eftir tæpar tvær vikur, nægur tími til að slípa sig aftur saman. Valskonur eru aftur á móti að koma sterkari úr fríinu en áður og hafa fengið Bergþóru Holton Tómasdóttur aftur og Aaliyuh í stað Alexöndru Petersen. Miðað við að Aaliyah er ekki enn komin í leikform og er samt nokkuð góð þá gæti Valur verið ansi erfiðar viðureignar í úrslitakeppninni. Kemur í ljós.
 

Tölfræði leiksins
Myndasafn: Torfi Magnússon
Viðtöl eftir leikinn:

 
Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Torfi Magnússon
Fréttir
- Auglýsing -