spot_img
HomeFréttirValsarar sóttu sigur í Grindavík í háspennuleik

Valsarar sóttu sigur í Grindavík í háspennuleik

Grindavík tók á móti toppliði Vals í 15. umferð Dominosdeildar kvenna en loksins komust gular á blað í fyrsta leik eftir jólafrí, unnu þá Breiðablik nokkuð örugglega.   Valur sem virtist ætla sigla í gegnum mótið án þess að tapa hafði talsvert gefið eftir og tapað tveimur leikjum en auðvitað skipti miklu máli að “geitin” Helena var ekki með en hún mætti aftur í búninginn eftir áramót.

Þegar undirritaður var að koma sér fyrir þá var Kiana Johnson, frábær bandarískur leikmaður Vals, að taka á móti verðlaunum fyrir að vera valinn leikmaður 14. umferðarinnar en ég er ekki með tölu á þeim skiptum sem hún hefur tekið við þessum verðlaunum í vetur.  Í síðasta leik á móti Skallagrími skilaði hún 39 framlagspunktum sem er auðvitað frábær frammistaða.  Hvernig dómnefndinni tókst samt að komast að þessari niðurstöðu og líta fram hjá Bríeti Sif Hinriksdóttur leikmanni Grindavíkur sem skilaði 44 framlagspunktum, er mér mjög svo hulin ráðgáta….  auðvitað er ég hlutdrægur sem Grindvíkingur en að láta frekar bandarískan leikmann sem hefur hlotið nafnbótina nokkrum sinnum, en ekki íslenskan leikmann sem hefur hingað til ekki náð að sýna sitt rétt andlit, springur svona líka út og leiðir lið sitt til síns fyrsta sigurs – óskiljanlegt!  Auðvitað algert aukaatriði en samt…..

Að leiknum.

Í fyrsta fjórðungi var ekki hægt að sjá að þarna væru efsta og neðsta lið deildarinnar að mætast og leiddu gular að loknum fyrsta fjórðungi, 20-16.  Allt annað að sjá til liðsins og greinilegt að Grindaavík nýtti jólapásuna vel.  Jafnt framlag allra í þessum fyrsta fjórðungi en greinilegt að Jordan vex ásmegin með hverjum leiknum sem líður en hún var 1 stoðsendingu frá þrefaldri tvennu í sigrinum á móti Breiðablik um daginn.  Allar sem spiluðu að leggja í púkkið.  Valskonur varla svipur hjá sjón m.v. byrjun mótsins og greinilegt að Helena á eitthvað í land.  Kiana og Dagbjört báðar með 5 stig, Helena 4 og Sylvía Rún 2.

Eftir tæpar 4 mínútur í 2. leikhluta tók Darri þjálfari Vals leikhlé enda ekki vanþörf á því Grindavík hafði sett 8 stig á töfluna á móti engu stigi Vals, staðan orðin 28-16!!  Aldeilis ótrúlegar tölur m.v. það sem á undan er gengið í vetur en þetta Grindavíkurlið einfaldlega allt annað lið en fyrir áramót en sama má segja um Valskonur – bara í hina áttina…..  Valsstúlkur eru hins vegar ekki þrefaldir meistarar síðasta tímabils fyrir ekki neitt og áður en varði höfðu þær breytt stöðunni úr 30-18 í 30-26 og þá tók Jóhann Árni leikhlé.  Hörku leikur í gangi!  Valur náði að jafna áður en Grindavík tók betri lokasprett og leiddi þegar haldið var í pásu, 40-35.  

Dominos-leikmaðurINN í síðustu umferð að mínu mati eins og áður hefur komið fram, Bríet Sif stillti heldur betur miðið í 2. leikhluta og setti 4 þrista og var þá komin með 5 slíka úr 10 tilraunum, 15 stig og 6 fráköst.  Sú heldur búin að hrista af sér slyðruorðið!  Jordan áfram flott, komin með 10 stig, 6 fráköst og 2 stoðsendingar.  Hrund fyrirliði líka flott, komin með 8 stig.

Valsstúlkur tóku góðan kipp um miðjan leikhlutann og sýndu glefsur af því sem þær hafa verið að gera í vetur en Helena var komin með 10 stig, Kiana og Sylvía 8 og Dagbjört Dögg 7.

Gular héldu áfram á sömu braut í upphafi seinni hálfleiks og voru fljótlega komnar í 10 stiga forskot, 47-37 en aftur girtu Hlíðarendadömur sig í brók og áður en varði voru þær komnar yfir, 50-51 og gerðu sig líklega til að taka yfirhöndina og voru komnar 5 yfir, 55-60 en grimmar gular áttu lokasporin og 1 stigi munaði fyrir lokafjórðunginn, 59-60.  Hent var í Papas pizzuskot á milli 3-4 og spreytti ungur og upprennandi körfuknattleiksmaður sig frá vítalínunni og var grátlega nærri að setj´ann!

Mætur maður benti mér á þá mögnuðu staðreynd að í upphafi 4. leikhluta voru fjórir leikmenn Grindavíkurliðsins (Elísabet Ýr, Viktoría, Hekla og Hulda)  15-16 ára, fæddar 2003 og 2004!!  Þær byrjuðu ásamt hinni frábæru Jordan og ekki virtust þær hræðast stóra sviðið því þær héldu alveg í horfinu og vel það og greinilegt skv. þessu að framtíðin er björt í Grindavík.  Leikhlutinn var æsispennandi allan tímann og munaði aldrei meira en 3 stigum og komust heimastúlkur m.a. yfir, 71-70 en Valsstúlkur virtust ætla taka lokasprettinn, voru 3 stigum yfir, 71-74 og með boltann og skutu á sama sekúndubroti og skotklukkan rann út, Grindavík fékk tæpar 3 sekúndur og brotið var á Jordan þegar hún var að mati undirritaðs, komin af stað með að reyna skot enda vissi hún að leiktíminn var að renna út og hún fékk 3 vítaskot.  Eins og kemur fram í viðtalinu við Darra þá deilum við ekki sömu skoðun varðandi þennan dóm 🙂  Fyrstu tvö fóru beint ofan í en það síðasta rétt geigaði og Valssigur því staðreynd, 73-74.

Hjá Val var Kiana frábær, með 38 í framlag (22 stig, 13 fráköst, 8 stoðsendingar og 5 stolna bolta!)  Frábær leikmaður hér á ferð sem skilaði heldur betur sínu í kvöld.  Helena var með 20 í framlag (18 stig og 7 fráköst) en við höfum oft séð mun betri tölur en það frá þessu bestu körfuknattleikskonu Íslandssögunnar.  Sylvía sú eina í viðbót sem fór yfir 10 stiga framlagsmúrinn (11).  (7 stig og 10 fráköst)

Hjá Grindavík hélt Bríet Sif áfram á svipaðri braut og í síðasta leik og kemur greinilega vel undan jóla- og áramótasteikinni!  Hún skilaði 27 í framlag (25 stig og 11 fráköst).  Munar heldur betur um fyrir nýliðana ef hún heldur áfram á þessari braut.  Ég er hrifinn af Jordan! – sko körfuboltalega séð….  Frábær leikmaður sem stýrir ungu stelpunum gífurlega vel, finnur þær trekk í trekk galopnar, rífur fráköst, stelur boltum, ver skot og tekur ekki of mikið til sín með eigin skotgleði eins og mér finnst vera allt of algengt í íslenskum kvennakörfuknattleik!  Hún skilaði  26 í framlag (16 stig, 10 fráköst, 7 stoðsendingar, 3 stolnir og 3 blokk).  Elísabet Ýr og Hrund skiluðu báðar 12 í framlag (E 5 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar, H 10 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar).

Frábær skemmtun og þrátt fyrir úrslitin þá grunar mig að báðir aðilar fari með með skrýtnar tilfinningar á koddann, Valur með sigur en spilamennsku sem er langt yfir pari en Grindavík með tap en spilamennsku sem mun pottþétt fleyta þeim langt ef þær halda áfram á sömu braut.

Fréttir
- Auglýsing -