16:37
{mosimage}
(Jón Arnór verður í eldlínunni á eftir)
Benetton Treviso mætir La Fortezza Bologna í hreinum úrslitaleik í dag um sæti í undanúrslitum ítölsku deildarinnar. Staðan í einvíginu er jöfn 2-2 og fer oddaleikurinn fram á heimavelli Benetton en liðin hafa unnið báða heimaleiki sína til þessa. Jón Arnór Stefánsson hefur stigið rækilega upp í liði Benetton að undanförnu og verður fróðlegt að sjá hvað kappinn gerir í kvöld.
Benetton vann fyrsta heimaleikinn 85-77 og komust í 1-0. Í öðrum leiknum lágu Jón og félagar 94-81 á útivelli. Í þriðja leik svaraði Benetton með 91-73 sigri og komust í 2-1 en Bologna jafnaði metin á mánudag með 99-78 heimasigri. Í kvöld er oddaleikurinn en þegar eru Montepaschi Siena, Angelico Biella og Armani Milano komin áfram í keppninni. Þess má geta að Angelico Biella sló Lottomatica Roma út í 8-liða úrslitum en Roma er fyrrum lið Jóns Arnórs á Ítalíu og hafnaði í 2. sæti í deildarkeppninni.
Oddaleikur Benetton og Bologna hefst kl. 18 að íslenskum tíma og verður sýndur á Sky Sport 2.