9:30
{mosimage}
Það verður sannarlega mikið um dýrðir í Berlín í dag þegar leikið verður til úrslita í Meistaradeildinni (Euroleague). Klukkan 15 að íslenskum tíma mætast Barcelona og Olympiacos í leik um bronsið en klukkan 18 að íslenskum tíma hefst úrslitaleikurinn milli Panathinaikos og CSKA Moskva.
Barcelona og Olympiacos eru engin smálið. Olympiacos setti markið hátt fyrir veturinn og fengu til sín 11 leikmenn, þ.á.m. Josh Childress frá Atlanta Hawks og Theodoros Papaloukas frá CSKA Moskvu en þar vann hann rússneska titilinn 6 sinnum og 2 vann hann Meistaradeildina með þeim auk þess að vera valinn besti leikmaðurinn ótal sinnum. Barcelona var líka í innkaupaleiðangri fyrir tímabilið, fékk t.d. Juan Carlos Navarro til baka frá Memphis Grizzlies og David Andersen frá CSKA Moskva en þessi ástralski landsliðsmaður sem er einnig með danskt ríkisfang hefur unnið Meistaradeildina þrisvar, tvisvar með CSKA Moskva og einu sinni með Virtus Kinder Bologna.
Liðin sem leika til úrslita eru heldur engin slorlið. Eins og hefur komið fram hefur CSKA Moskva unnið meistaradeildina sex sinnum og tvisvar á síðustu þremur árum og er þetta fjórða árið í röð sem þeir leika til úrslita. Í þeirra liði eru m.a. J.R. Holden sem var aðalmaðurinn í rússneska landsliðinu sem varð Evrópumeistara á Spáni 2007. Þarna eru einnig Erazem Lorbek sem lék með Jóni Arnóri Stefánssyni í Roma, Ramunas Siskauskas sem er litháískur landsliðsmaður, bandaríkjamaðurinn Trajan Langdon sem lék með Duke háskólanum og Matjas Smodis sem er slóvenskur landsliðsmaður. Á bekknum sitja svo m.a. Viktor Khryapa rússneskur landsliðsmaður sem lék með Portland og Chicago í NBA deildinni, Zoran Planinic króatískur landsliðsmaður sem lék með New Jersey í NBA.
Andstæðingarnir í úrslitaleiknum, gríska liðið Panathinaikos er heldur ekki illa skipað. Þar er litháíski landsliðsmaðurinn Sarunas Jasikevicius sem lék með Indiana og Golden State í NBA deildinni en hefur náð frábærum árangri víða um Evrópu. Nikola Pekovic sem leikur með landsliði Svartfjallalands og áður sameiginlegu landsliði þeirra og Serba, þá var valinn af Minnesota í NBA valinu 2008. Vassilis Spanoulis, grískur landsliðsmaður sem hefur leikið með Houston Rockets, Antonios Fotsis er annar grískur landsliðsmaður sem hefur leikið með Memphis Grizzlies. Þá er þar Bandaríkjamaðurinn Michael Batiste sem kom við hjá Memphis Grizzlies áður en hann hélt til Panathinaikos þar sem hann hefur unnið gríska titilinn fimm sinnum og Meistaradeildina einu sinni. Að lokum má nefna tvo gríska landsliðsmenn í viðbóta, Dimitris Diamantidis og Íslandsvininn Kostas Tsarsaris sem lék með Grindavík veturinn 1997-98.
Það er því um að gera fyrir alla að kaupa sér aðgang að Euroleague TV á heimasíðu þeirra og fylgjast með mögnuðum körfubolta í kvöld.
Mynd: www.euroleague.net