Tveir leikir fóru fram í Lengjubikar karla í kvöld og þurfti framlengingu til að fá niðurstöðu í þá báða. Um var að ræða tvo nauma heimasigra þar sem KR lagði Þór Þorlákshöfn og Snæfell lagði Tindastól.
Úrslit kvöldsins í Lengjubikar karla:
Snæfell 93–91 Tindastóll (framlengt)
Framlengja varð í stöðunni 83-83 þegar Pálmi Freyr Sigurgeirsson jafnaði metin fyrir Snæfell. Jón Ólafur Jónsson kláraði svo leikinn fyrir Snæfell 93-91 á vítalínunni þegar tvær sekúndur voru til leiksloka. Mariquis Hall gerði 30 stig í liði Snæfells og gaf 7 stoðsendingar en hjá Tindastól var Trey Hampton með 20 stig og 7 fráköst.
KR 95–94 Þór Þorlákshöfn (framlengt)
Grétar Ingi Erlendsson jafnaði metin í 82-82 þegar fimm sekúndur lifðu af venjulegum leiktíma. Edward Horton reyndist svo hetja KR er hann skoraði í teignum þegar sekúnda var til leiksloka. David Tairu gerði 23 stig og tók 7 fráköst í liði KR en hjá Þórsurum var Darrin Govens nærri þrennunni með 29 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar.
Mynd/ Hrafn og félagar í KR lentu í hörkuleik gegn Þór Þorlákshöfn í kvöld.