spot_img
HomeFréttirÚrslit kvöldsins: KFÍ vann í Garðabæ

Úrslit kvöldsins: KFÍ vann í Garðabæ

Þá er leikjum kvöldsins lokið í Lengjubikarnum en það má með sanni segja að óvænt úrslit litu dagsins ljós í kvöld. KFÍ vann Stjörnuna í Garðabæ, Fjölnir vann ÍR í Kennaraháskólanum og Hamar vann Tindastól á Sauðarkróki.
Ísfirðingar sem eru nýliðar í Iceland Express-deildinni sýndu styrk sinn er þeir unnu Stjörnuna 96-108 á útivelli.
 
Ari Gylfason var sjóðandi heitur en hann setti 25 stig en hann nýtti sex af átta þriggja-stiga skotum sínum. Edin Suljic bætti við 18 stigum. B.J. Aldridge byrjar því vel með KFÍ í vetur.
 
Jovan Zdravevski var lang stigahæstur hjá Stjörnunni með 30 stig og Justin Shouse bætti við 18.
 
Í Kennaraháskólanum áttust við ÍR og Fjölnir í leik þar sem síðasta skot leiksins gat jafnað hann. ÍR-ingar voru undir stóran hluta af leiknum en náðu með mikilli seiglu að vinna sig inn í leikinn í lokin. Fengu þeir tækifæri til að jafna leikinn en þriggja-stiga skot þeirra geigaði. Lokatölur 73-76 Fjölni í vil.
 
Stigahæstur hjá Fjölni var Sindri Kárason með 17 stig og Tómas Tómasson var með 16. Ægir Þór Steinarsson var ekki langt frá þrennunni en hann skoraði 15 stig, tók 7 fráköst og gaf 10 stoðsendingar.
 
Hjá ÍR var Kelly Biedler með 23 stig og Nemanja Sovic bætti við 22 stigum.
 
Á Sauðarkróki tók Tindastóll á móti Hamri. Langt framan af var lítið skorað en leikurinn í járnum allan tímann. Hamar vann að lokum 63-72 þar sem nýji leikmaður Hamars Nerijus Taraskus var stigahæstur með 18 stig og Svavar Pálsson bætti við 16 stigum.
 
Hjá Tindastól var Helgi Rafn Viggósson nálægt einni ofurtvennu en hann skoraði 18 stig og tók 20 fráköst. Friðrik Hreinsson setti 15 stig.
 
Þá er ljóst hvaða lið mætast í 8-liða úrslitum Lengjubikarsins en allir leikirnir eru á sunnudagskvöld kl. 19:15.
 
8-liða úrslit:
Njarðvík-Grindavík
KR-KFÍ
Snæfell-Fjölnir
Keflavík-Hamar
 
Ljósmynd/ tomasz@karfan.isJón Sverrisson skoraði 14 stig fyrir lærisveina Tómasar Holtons í kvöld.
 
emil@karfan.is
 
Fréttir
- Auglýsing -