Í kvöld fór heil umferð fram í Iceland Express deild kvenna þar sem Keflavík vann sannfærandi 70-84 sigur á KR. Þá var einnig leikið í Lengjubikar karla þar sem KFÍ skellti úrvalsdeildarliði Fjölnis og því tvö lið í úrvalsdeildinni sem hafa fengið að kenna á vestfirska tevatningu, Fjölnir og Haukar.
Úrslit kvöldsins í Iceland Express deild kvenna:
KR 70-84 Keflavík
Jaleesa Butler gerði 27 stig, tók 14 fráköst og gaf 5 stoðsendingar í liði Keflavíkur. Birna Valgarðsdóttir var ekki síðri með 24 stig og 12 fráköst. Hjá KR var Erica Prosser með 27 stig og 8 stoðsendingar og þær Sigrún Ámundadóttir og Bryndís Guðmundsdóttir bættu báðar við 12 stigum.
Snæfell 73-68 Fjölnir
Alda Leif Jónsdóttir gerði 24 stig og gaf 5 stoðsendingar í liði Snæfells og Kieraah Marlow bætti við 14 stigum og 11 fráköstum. Hjá Fjölni var Brittney Jones með meira en helming stiga Fjölniskvenna en hún skoraði 38 stig og tók 8 fráköst ásamt því að gefa 5 stoðsendingar. Katina Mandylaris bætti svo við 14 stigum og 13 fráköstum.
Njarðvík 100-77 Valur
Valskonur töpuðu sínum fimmta deildarleik í röð í kvöld en þeirra stigahæst í Ljónagryfjunni að þessu sinni var Kristrún Sigurjónsdóttir með 17 stig og Melissa Leichlitner bætti við 16 stigum. Hjá Njarðvíkingum fór Lele Hardy hamförum með þrennu, 22 stig, 16 fráköst og 10 stoðsendingar. Shanae Baker var þó stigahæst með 23 stig og Petrúnella Skúladóttir bætti 22 stigum við.
Hamar 70-77 Haukar
Hope Elam gerði 23 stig og tók 12 fráköst í liði Hauka og Jence Ann Rhoads var nærri þrennunni með 21 stig, 9 fráköst og 10 stoðsendingar. Hjá Hamri var Samanta Murphy með 32 stig og 7 fráköst en Hamarskonur léku án Hönnuh Tuomi sem var hvíld í kvöld en hún mun vera smá tæp í hné en gert er ráð fyrir að hún verði með strax í næsta leik Hamars.
Lengjubikar karla:
KFÍ 101-83 Fjölnir
Christopher Miller-Williams gerði 27 stig og tók 21 frákast í liði KFÍ og Craig Schoen daðraði við þrennuna með 21 stig, 9 fráköst og 9 stoðsendingar. Nathan Walkup var með 27 stig í liði Fjölnis og Calvin O´Neal bætti við 24 stigum og 10 stoðsendingum.
Mynd/ [email protected] – Jaleesa Butler átti enn einn stórleikinn í liði Keflavíkur í kvöld.