spot_img
HomeFréttirÚrslit kvöldsins: ÍR tók tvö stig í Hólminum (Uppfært)

Úrslit kvöldsins: ÍR tók tvö stig í Hólminum (Uppfært)

21:10
{mosimage}

(Eiríkur ,,öldungur" Önundarson hefur farið mikinn að undanförnu hjá ÍR)

Sjöundu umferð Iceland Express deildar karla lauk í kvöld með þremur leikjum þar sem ÍR-ingar unnu sinn annan leik í röð er þeir lögðu Snæfell 86-91 í Stykkishólmi. Eiríkur Önundarson fór fyrir ÍR-ingum með 21 stig og 4 fráköst. Næstur honum í liði ÍR var Sveinbjörn Claessen með 20 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar. Í liði Snæfells var Sigurður Þorvaldsson með 28 stig, Jón Ólafur Jónsson gerði 23 stig og tók 9 fráköst og Hlynur Bæringsson var með 13 stig og 12 fráköst.

Hrakfarir Skallagríms halda áfram en Borgnesingar lágu í kvöld 92-67 gegn Tindastól á Sauðárkróki. Sören Flæng var stigahæstur hjá Stólunum með 23 stig og 6 fráköst en Igor Beljanski byrjaði af krafti með Sköllunum og setti 31 stig, tók 7 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.

Njarðvíkingar unnu svo sinn fyrsta heimaleik í vetur þegar Þór Akureyri kom í heimsókn í Ljónagryfjuna. Lokatölur í Njarðvík voru 92-79 Njarðvíkingum í vil þar sem Magnús Þór Gunnarsson gerði 27 stig og Logi Gunnarsson 25. Cedric Isom fór að vanda fyrir Þór í stigaskorinu með 25 stig í kvöld en leikurinn í Njarðvík einkenndist af miklu villuflóði og voru alls dæmdar 50 villur í leiknum og fimm leikmenn, einn úr Njarðvík og fjórir úr Þór, þurftu frá að víkja með fimm villur.

Einnig var nokkuð um að vera í 1. deild karla í kvöld þar sem KFÍ vann nauman heimasigur gegn Laugdælum 73-70. Daniel Kalov setti niður 21 stig fyrir heimamenn í KFÍ en Pétur Már Sigurðsson skoraði 25 stig fyrir Laugdæli.

Körfurnar voru hrikalega stórar á Flúðum í kvöld þegar UMFH landaði sterkum heimasigri gegn Valsmönnum. Lokatölur leiksins voru 115-111 UMFH í vil þar sem Caleb Holmes fór mikinn með 40 stig, 9 fráköst og 7 stoðsendingar fyrir UMFH. Hjá Val var Rob Hodgson atkvæðamestur með 32 stig og 7 fráköst.

Haukar höfðu nauman spennusigur á Ármanni eftir framlengdan leik að Ásvöllum 77-74 í 1. deild karla. Sveinn Ó. Sveinsson gerði 22 stig og tók 15 fráköst fyrir Hauka en hjá Ármenningum var Sæmundur Oddsson með 21 stig og 5 fráköst.

Ármenningar töpuðu einnig í 1. deild kvenna þegar Njarðvíkingar komu í heimsókn. Lokatölur voru 59-71 Njarðvíkingum í vil.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -