spot_img
HomeFréttirÚrslit dagsins á HM: Heimamenn sannfærandi og Litháar frábærir í fjórða leikhluta

Úrslit dagsins á HM: Heimamenn sannfærandi og Litháar frábærir í fjórða leikhluta

Í dag voru sex leikir á dagskrá á HM í Tyrklandi. Það má með sanni segja að körfuboltaunnendur voru spenntir eftir leikjum dagsins en meðal þeirra leikja sem voru á dagskrá í dag var Tyrkland-Grikkland og Litháen-Spánn.
C-riðill:
Viðureign Tyrkja og Grikkja var frábær. Fyrirfram mátti búast við hörkuleik enda hafa þessar þjóðir átt sínar áhugaverðu stundir í gegnum tíðina. Tyrkir hvattir áfram af þúsundum eldheitra stuðningsmanna voru með frumkvæðið stóran hluta af leiknum og höfðu að lokum 11 stiga sigur 76-65 en í hálfleik munaði aðeins tveimur stigum 41-39.
 
Ersan Ylyasova var sjóðandi hjá Tyrkjum en hann setti alla sex þristana sína ofaní og endaði með 26 stig. Hjá Grikkjum var miðherjinn Ioannis Bourousis stigahæstur með 15 stig.
 
Púertó Ríkó vann sinn fyrsta leik í mótinu þegar þeir lögðu Kína 84-76. Carlos Arroyo lék ekki með Púertó Ríkó en hann er meiddur. Þrátt fyrir það náðu þeir að leggja Kínverja og eru komnir á gott ról.
 
Hjá Púertó Ríkó skoraði Angel Bassallo 22 stig og hjá Kína var Yi Jianlian var með 24 stig.
 
Rússar náðu að klára Fílabeinsströndina en lokamínúturnar voru æsispennandi. Rússland var yfir 68-55 þegar 1.40 var eftir. Fílabeinsströndin náði að minnka muninn í tvö stig 68-66 með góðum leik og sérstaklega frá Guy Edi. En Rússar kláruðu leikinn á línunni og unnu 72-66.
 
Hjá Rússum var Timofey Mozgov með 19 stig og hjá Fílabeinsströndinni skoraði Mohamed Kone 16 stig.
 
D-riðill:
Litháaar unnu Spánverja 76-73 í frábærum leik en Spánn leiddi með 15 stigum um tíma. Heimsmeistararnir hafa þá tapað tveimur leikjum. Á lokasprettinum var Linas Kleiza svellkaldur en hann setti fjögur af síðustu fimm stigum síns liðs.
 
Hjá Litháen var Linas Kleiza stigahæstur með 17 stig og hjá Spáni skoraði Marc Gasol 18 stig.
 
Frakkar unnu Kanda 68-63 í enn einum hörkuleik í dag. Nicoals Batum var frábær eð 24 stig og 7 fráköst. Þetta var þriðja tap Kanada í keppninni en þeir hafa verið yfir í öllum leikjum sínum þegar lokaleikhlutinn hefst ene þeir ná ekki að klára leikina.
 
Hjá Frökkum var Nicolas Batum meðe 24 stig og Levon Kendall setti 15 fyrir Kanada.
 
Nýja Sjáland vann stóran sigur á Líbanon í dag 106-78. Þeir náðu góðri forystu strax í fyrsta leikhluta og eftir það var aldrei spurning hvorum megin sigurinn myndi enda.
 
Stigahæstur hjá Nýja Sjálandi var Kirk Penney með 26 stig hjá Líbanon var Fadi El Khatib með 18 stig.
 
Ljósmynd/ Litháar voru frábærir á lokasprettinum í dag.
 
emil@karfan.is
 
 
Fréttir
- Auglýsing -